Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 19:09:23 (5196)

2000-03-13 19:09:23# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[19:09]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég ætla ekki hér eða nú að taka afstöðu til samnings hæstv. heilbrrh. við Securitas um byggingu og rekstur elliheimilis, ég þekki ekki þann samning. Ég veit hins vegar að það er þó nokkur forsaga að því að einstaklingar eða félagasamtök reki elliheimili sem sjálfseignarstofnanir. Ég nefni Elliheimilið Grund, ég nefni starfsemina í Hveragerði, SÍBS o.s.frv. Ég sé ekki að það sé neitt hræðilegt eða neitt sem þar hafi gerst sem við þurfum að fordæma.

Eins hafa einkaskólar verið reknir með ágætum árangri í landinu. Ég er ekkert sérstaklega hlynntur einkaskólum og að þeir geti valið úr nemendunum en ég held að þeir geti alveg sinnt hlutverki sínu með sóma.

Ég vil leyfa mér að fullyrða að hagur leigjenda hefur stórbatnað með húsaleigubótunum. Ég vísa til málþings um húsaleigubætur sem haldið var í síðustu viku í Borgartúni þar sem kom fram ákaflega mikil ánægja með fyrirkomulag húsaleigubóta og þá þróun sem þar hefur orðið á undanförnum árum. Þetta var mjög fjölsótt málþing og menn báru mikið lof á það fyrirkomulag sem þarna er komið á. Ég minni á að við erum alltaf að þróa húsaleigubætur og lagfæra og sníða af vankanta. Seinast var hækkað um áramótin og aukið tillit tekið til barnafólks o.s.frv.

Lítið sveitarfélag getur að sjálfsögðu keypt sérfræðiþjónustu. Það þarf ekki að vera sálfræðingur í fullu starfi, það er hægt að kaupa þjónustu fyrir einn eða tvo einstaklinga einhvern veginn tímabundið. Það þarf ekki að ráða sérfræðinga fast í full stöðugildi. Þegar litið er á hvaða fólk er að útskrifast úr háskólanum verður ekki séð fram á beinan skort á sálfræðingum alveg á næstunni hjá okkur á Íslandi.

Það er svo skrýtið með það að menn hafa verið að vorkenna litlu sveitarfélögunum að taka við málefnum fatlaðra en tregðan sem ég verð var við frá sveitarfélögunum að yfirtaka málaflokkinn kemur fyrst og fremst frá stærstu sveitarfélögunum og frestunin hefur verið fyrst og fremst vegna beiðni stærstu sveitarfélaganna sem eru ekki tilbúin að taka við málflokknum. Það eru ekki litlu sveitarfélögin sem biðja um það heldur eru það þau stóru.

Ég vil taka fram að þó að við séum að gera gælur við það núna að yfirtakan geti farið fram 1. jan. 2002 vil ég ekki að það verði farið að knýja einhver sveitarfélög til að taka við málaflokknum ef þau eru ekki tilbúin að gera það. Þá verðum við bara að hafa það að fresta þessu eina ferðina enn. Það er búið að tvífresta og það er auðvitað slæmt að láta ganga svo áfram. En ef einhver sveitarfélög, sem þurfa að taka á sig miklar byrðar eða taka að sér mikil verkefni út af málaflokknum, óska eftir því að fresta vil ég ekki standa í því að neyða þau til þess arna.

Það er jákvætt að félmn. vinni sem mest að þessu máli og sem ötullegast og ég fagna því ef félmn. hefur tækifæri til þess að vinna í málinu núna.

Ég sé að tímanum er að ljúka. Svíþjóð er engin fyrirmynd, hv. 13. þm. Reykv., í því efni að færa verkefni til sveitarfélaga. Þetta er byggðapólitík og ég ráðlegg hv. þm. að fara til Hornafjarðar og kynna sér hvernig Hornafjörður hefur sem reynslusveitarfélag tekið við tilheyrandi verkefnum.