Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 19:14:55 (5197)

2000-03-13 19:14:55# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[19:14]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef kynnt mér starfsemi sveitarfélagsins á Hornafirði og veit og get tekið undir að þar hefur tekist vel til enda gat ég um það í upphafi máls míns áðan að að mörgu leyti væri vel að þessum málum staðið með því að ráðast í að færa verkefni til sveitarfélaga í gegnum reynslusveitarfélög.

[19:15]

Ég legg áherslu á að ég er einn af einörðum stuðningsmönnum húsaleigubóta og hef reyndar barist fyrir því að ekki sé mismunað í skattlagningu á milli þeirra sem fá húsaleigubætur og aðrar bætur frá hendi ríkisins. Ég vakti einvörðungu athygli á því að í 1. gr. laga um húsaleigubætur segir að þau eigi að verða til þess að bæta stöðu leigjenda. Ég benti á að í Reykjavík hefur það ekki gerst vegna þess að aðrir þættir komu þar til sögunnar og ég fann þar samsvörun við þetta frv.

En það sem mér finnst vera áhyggjuefni, herra forseti, er að hæstv. félmrh. skuli leggja að jöfnu annars vegar samtök á borð við SÍBS, DAS eða önnur samtök sem eru sprottin upp úr verkalýðshreyfingu eða samtökum sjúklinga eða hafa starfað á svipuðum forsendum, við verktakafyrirtæki, iðulega fjölþjóðleg, sem eru að sækja inn í velferðarþjónustuna til að reka hana eins og hvern annan atvinnurekstur og hafa af henni arð. Víðast hvar annars staðar hafa menn áhyggjur af þessu. Ég vitnaði í svokallaða Parkland-skýrslu þar sem menn hafa verið að rýna í þær breytingar sem þessu fylgja, annars vegar að veita þjónustuna sem ýmis félagasamtök og fyrirtæki að sönnu hafa gert en byggt á hugmyndafræði þjónustunnar og þeirri breytingu sem er að verða núna með tilkomu verktakafyrirtækja, fjölþjóðlegra fyrirtækja sem eru að sækja inn á þennan vettvang til að hafa af þessu arð.

Mér finnst það áhyggjuefni ef hæstv. félmrh. gerir engan greinarmun á þessu tvennu.