Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 19:17:24 (5198)

2000-03-13 19:17:24# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[19:17]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held ég hafi tekið það alveg skýrt fram að ég væri ekki að leggja neinn dóm á samning heilbrrn. við Securitas vegna þess að ég þekki hann ekki. Ég hef ekkert komið að honum og var ekki að jafna honum neitt saman við SÍBS eða aðra aðila. Ég vakti hins vegar athygli á því að það er ekki nýmæli, það er ekki eins og þetta sé í fyrsta sinn sem einkaaðilar taka að sér að reka slíka starfsemi. Ég hygg að Gísli í Ási hafi reynt að láta þá starfsemi líka bera sig. Ég hygg að hann hafi ekki verið að reka þetta til þess að tapa á því.

Mikil umræða hefur sprottið hér út af einkavæðingunni og menn eru skelfingu lostnir yfir því að þetta sé allt saman að fara í hendurnar á einhverjum hákörlum. Það er best að ég geri hér litla játningu. Nefndin sem skilaði málinu lagði til í bráðabirgðaákv. að opnuð yrði heimild til að gera þjónustusamninga við þær stofnanir sem rækju þessa starfsemi nú þegar. Með tilliti til þess og reynslu minnar af þessum stofnunum og sérstaklega með tilliti til Barnaverndarstofu þar sem svona framkvæmd hefur einnig verið, ég nefni meðferðarheimili sem eru mjög til fyrirmyndar eins og Árbót í Þingeyjarsýslu og Torfastaði þar sem einstaklingar taka að sér að reka þessa starfsemi og gera það betur, leyfi ég mér að fullyrða, en okkur er unnt að gera alfarið hjá ríkinu. Þess vegna vildi ég ekki loka fyrir að hægt væri að gera einhverja nýja samninga. Það er því við mig að sakast persónulega.