Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 19:19:51 (5199)

2000-03-13 19:19:51# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[19:19]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ekki vil ég heldur verða til þess að loka á slíka samninga sem geta í mörgum tilvikum verið hyggilegir og þetta hefur stundum tekist ágætlega. En er það virkilega svo að það hafi ekki verið rætt í ríkisstjórninni áður en ráðist er í þá grundvallarbreytingu að bjóða út gamla fólkið, að bjóða út elliheimilin á Íslandi eða skólana? Hefur þetta ekki verið rætt í ríkisstjórninni? Hæstv. félmrh. kemur hingað í ræðustól og segist ekki hafa kynnt sér málið. Í fjölmiðlum hefur birst aragrúi blaðagreina þar sem menn hafa verið að takast á um þessi efni. Og hæstv. félmrh. kemur hingað í ræðustól og segist ekki hafa kynnt sér þessi mál. Hefur hann ekki kynnt sér þá grundvallarbreytingu sem verið er að gera innan velferðarþjónustunnar, að bjóða út skólana og bjóða út elliheimilin? Mér finnst þetta áhyggjuefni.