Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 13:56:25 (5208)

2000-03-14 13:56:25# 125. lþ. 78.2 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, GAK
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[13:56]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við erum að ræða lög, eins og komið hefur fram, sem átti að endurskoða á þessu ári og leggja fram fyrir 1. nóv. á þessu ári nýtt frv. um það hvernig málum yrði skipað. Eðlilegt hefði verið, eða mér finnst það a.m.k., í ljósi þeirrar umræðu sem almennt hefur farið fram um fiskveiðistjórnarmál og dóma sem gengið hafa varðandi veiðileyfi og aflarétt eða skyldu manna til að hafa aflahlutdeild til að stunda veiðar, að þetta mál hefði einfaldlega ekki komið fram, a.m.k. ekki í þeim búningi sem það er sett fram.

Ef áhyggjur hæstv. sjútvrh. voru þær að e.t.v. næðist ekki að halda aflaheimildum það lengi fram eftir sumri, t.d. ef norsk-íslenska síldin gengi nær landinu og ekki yrði hægt að nýta heimildir vegna þess að þær væru búnar, þá hefði verið miklu eðlilegra af hálfu hæstv. ráðherra að leggja fram frv. sem hefði tekið ákveðinn hluta aflaheimildanna, t.d. 10% eða 20% í ákveðinn pott sem hann hefði svo getað ákveðið að leyfa mönnum að sækja í gegn leigugjaldi þegar lengra liði á sumarið.

En með tilliti til þess hversu stuttur tími er eftir af gildistíma þessara laga nr. 38 frá 11. maí 1998, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, held ég að sennilega hefði verið best að láta málið óhreyft og leyfa því að ganga fram eins og unnið hefur verið eftir sl. tvö ár.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort þær hugmyndir sem m.a. voru sendar til nefndasviðs Alþingis frá Farmanna- og fiskimannasambandinu á sínum tíma um hvernig úthlutunin og framsalið ætti sér stað og hver réttur áhafnar væri í því framsali, en þar var lagt til að áhafnarrétturinn væri a.m.k. 35% af þeim heimildum sem menn mættu framselja eins og lögin eru í dag, hafi ekkert komið til álita þegar unnið var frv. í ráðuneytinu.

Ég tel að öllu samanlögðu, og ætla ekki að hafa um þetta langt mál að þessu sinni, að frv. eins og það kemur fram núna sé ótímabært og eðlilegra hefði verið með tilliti til þess að það er þó aðeins sú vertíð sem fram undan er sem er til ráðstöfunar eftir núverandi lögum að frv. hefði ekki komið fram nú, a.m.k. ekki í þeim búningi sem það er. Ég vil hins vegar benda á að það hefði mátt hugsa sér að koma fram með frv. um að taka einhvern pott frá sem hæstv. ráðherra hefði svo getað ákveðið að setja t.d. Kvótaþing yfir þannig að menn gætu nálgast það eftir ákveðinn tíma t.d. eftir 1. júlí, ef það var hugmynd ráðherrans að nýta heimildirnar á annan hátt en þær hafa verið nýttar á undanförnum árum og stýra þeim með tilliti til þess að síldin breytti göngu sinni innan lögsögunnar.