Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 14:01:16 (5209)

2000-03-14 14:01:16# 125. lþ. 78.2 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[14:01]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þegar það varð ljóst að Íslendingar gætu farið að veiða aftur úr þessum síldarstofni kom upp afar sérkennilegt vandamál. Síldin varð munaðarlaus, enginn átti hana. Stjórnvöld sváfu ekki nótt eftir nótt yfir því hvernig ætti að koma einhvers konar eignarhaldi á síldarstofninn. Það hefur verið stefna íslenskra stjórnvalda til margra ára að útgerðarmenn ættu að eiga fiskinn í sjónum og hann skyldu þeir kaupa og selja réttinn til að veiða eftir því hvernig þeim hentaði það.

Þetta er skýringin á þeim aulalegu vinnubrögðum sem hafa verið notuð í málinu frá upphafi. Það að ætla sér að búa til einhvers konar rétt til eignar á veiðiheimildum í þessum stofni út frá svo takmörkuðum veiðum sem hafa verið leyfðar á honum er algerlega fráleit hugmynd og hefði aldrei átt að koma til greina. Það er ein af furðulegustu og verstu hugmyndunum sem hafa komið fram að gefa þennan rétt útgerðum sem gera út í örfá ár á stofn sem byrjað er að nýta aftur og gæti hugsanlega orðið margfalt stærri. En það var meiningin og um það hafa menn rifist en menn heyktust þó við að ganga þetta til enda. Ég segi, þakka skyldi þeim. Ég get ekki kvartað undan því þó að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi gert það áðan að menn notuðust ekki við þessa takmörkuðu aflareynslu.

Ég tel reyndar að eina brúklega hugmyndin vegna þess að menn ætluðu sér að nýta kvóta sem fram kom hafi verið sú að leigja veiðiheimildirnar út á markaði sem allir hafa jafnan aðgang að og hefði þá ekki verið hægt að kvarta undan því að ekki hefðu verið almennar leikreglur sem allir hefðu staðið jafnir gagnvart, þannig á að fara að í þessu tilfelli.

Nú kemur breytingin á 5. gr. laganna, sem stjórnvöld fóru með í gegnum Alþingi í fyrra, í veg fyrir að málin geti verið í því fari sem búið er að setja þau í. Síðan er hæstv. sjútvrh. með einhvers konar reglu í viðbót sem á að tryggja þeim sem veiddu í þrjú ár á öldinni, þegar fyrstu veiðileyfin voru gefin á þennan stofn, sérréttindi og réttindi fram yfir alla aðra. Þetta eru ekki brúklegar hugmyndir. Ég held að menn ættu að hafa í huga þá dóma sem hafa fallið og menn í sjútvn. ættu að skoða sig vandlega um áður en þeir fara þá leið sem hér er valin og velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að mynda almennar leikreglur sem allir standa jafnir frammi fyrir um veiðarnar úr þessum stofni. Ég fer fram á að farið verði vandlega yfir málið áður en það verður afgreitt.

Menn bíða eftir niðurstöðu Hæstaréttar í Vatneyrarmálinu. Fram hefur komið að stjórnvöld hafa tekið þá ákvörðun að gera ekki neitt fyrr en sá dómur liggur fyrir. Það er einfaldlega verið að bíða eftir niðurstöðu um hvort stjórnvöld komist upp með að gera upp á milli þeirra sem stunda sjó á Íslandi. Dómurinn snýst um hvort það megi með einhverjum hætti halda áfram að gera upp á milli þeirra sem stunda sjó á Íslandi. Mér finnst það ekki stórmannlegt að eftir kosningabaráttuna sem háð var fyrir stuttu, þar sem menn lofuðu því að taka á þessum málum, að þannig skuli að verki staðið. Ég minni á að tíminn er stuttur og þegar dómur hefur fallið munu menn ekki verða í því umhverfi sem þeir eru núna. Það umhverfi verður miklu óvinsamlegra gagnvart þeim stjórnvöldum sem þannig hafa viljað ganga fram ef dómurinn fellur á þennan veg.

Hvað gerist ef hann fellur á hinn veginn? Þá verður einfaldlega mikið ósætti í þjóðfélaginu um þá niðurstöðu. Það vita menn fyrir fram. Stjórnvöld þurfa þess vegna og ættu að fara í umræðuna af virkilegri alvöru. Það er ekki hægt að taka þennan hluta málsins undan. Menn þurfa að horfa á málið, sem liggur hér fyrir, með þeim augum að verið sé að skapa jafnræði og eðlilegar leikreglur í umhverfi þeirra útgerðarmanna sem eiga hlut að máli. En ekki að halda áfram í sama fari sem menn hafa haldið áfram frá því að þetta kerfi var tekið upp, þ.e. kerfi mismununar og óréttlætis þar sem allar reglur um eðlilega samkeppni og jafnræði eru brotnar.