Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 14:16:06 (5212)

2000-03-14 14:16:06# 125. lþ. 78.2 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[14:16]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alveg laukrétt. Hins vegar hefði hv. þm. líka mátt geta þess að sérstaklega var tekið fram að þessar veiðar sem þá voru stundaðar mundu ekki skapa nein fordæmi eða yrðu ekki lagðar til grundvallar öflunar veiðireynslu af einu eða neinu tagi. Það sem skapar fyrst og fremst þessi verðmæti er þannig samningur ríkisstjórnar Íslands við ríkisstjórnir Noregs, Rússlands og Danmerkur fyrir hönd Færeyinga.

Ég hefði hins vegar áhuga á því að leggja aðra spurningu fyrir hv. þm. og hún er þessi: Telur hann rétt að halda sér við það fyrirkomulag varðandi veiðar á norsk-íslensku síldinni að nokkrum tilteknum, útvöldum fyrirtækjum sé afhentur veiðirétturinn án annars endurgjalds en e.t.v. þess að afsala sér veiðiheimildum til annarra útgerðarmanna á einhverjum öðrum fisktegundum? Er það eina athugasemdin sem hv. þm. hefur við þetta kerfi? Styður hann það í grundvallaratriðum að öðru leyti? Telur hv. þm. það algjörlega fráleitt að viðmiðunin verði sú að allir útgerðarmenn standi jafnir fyrir lögunum og farin verði sú leið varðandi veiðar úr þessum fiskstofni að öllum verði heimilað að óska eftir veiðiheimildum gegn greiðslu og sá hljóti sem best býður?