Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 14:18:05 (5213)

2000-03-14 14:18:05# 125. lþ. 78.2 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[14:18]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað ljóst að föst hlutdeild okkar, of lág að mínu mati, í árlegum veiðum þessa stofns kemur til sögunnar á grundvelli samnings sem náðist milli stjórnvalda. Menn höfðu að vísu fyrirheit um að hana yrði unnt að hækka ef síldin breytti um hegðun og gengi meira inn í lögsöguna en af því hefur nú ekki orðið.

Hitt er jafnljóst að eins og hún hefur hegðað sér undanfarin ár þá hefði íslenskur floti haft umtalsverða veiðimöguleika úr þessum stofni án nokkurra samninga. Það er nokkuð borðleggjandi að hann hefði getað veitt mun meira á svo til hverju ári, að vísu ekki nema með samkomulagi við Færeyinga því að talsvert af veiðunum hefur verið innan færeysku lögsögunnar. En gefum okkur að tvíhliða samskipti Íslands og Færeyja hefðu haldist á sama grunni og árin áður en samningar voru gerðir þá má færa að því gild rök að samningurinn hafi minnkað veiðimöguleika íslenska flotans en ekki aukið hann.

Staðreyndin er líka sú, herra forseti, að árið 1998 var öllum gert kleift að sækja um veiðiheimildir og úthlutun. Fjölmargir minni bátar og togarar sóttu um en náðu síðan ekki árangri í veiðunum. Reynslan sýnir auðvitað að það hafa ekki önnur en stór og öflug nótaskip og flottrollsveiðiskip náð árangri. Úthlutun til annarra hefði þannig fyrst og fremst eitthvert fræðilegt gildi, það er reynslan. Mjög margir af þeim sem sóttu um fyrsta árið náðu engum árangri í veiðunum. Sumir komust eina veiðiferð, aðrir hálfa, komu á hliðinni í land o.s.frv. Þegar upp var staðið voru það fyrst og fremst sérhæfðu og öflugu skipin sem náðu árangri í þessum veiðum.

Ég er enginn sérstakur stuðningsmaður þessa fyrirkomulags og hef gagnrýnt það alveg frá byrjun. Ég segi aðeins að ef menn eru með einhverja úthlutun þá tel ég veiðireynslu vera skárri grundvöll en þann sem menn notuðu. Ég er ekki þar með að segja að ég hefði viljað standa þannig að verki, það eru mörg rök sem mæla gegn því. Hins vegar hef ég heldur ekki, herra forseti, verið sérstakur stuðningsmaður eða séð ljósið í uppboðshugmyndum hv. þm. sem ganga eins og rauður þráður í gegnum allar hans umræður um sjávarútvegsmál þannig að yfirleitt kemst ekki annað að.