Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 14:22:45 (5215)

2000-03-14 14:22:45# 125. lþ. 78.2 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég valdi þann kost að mæla hér fyrir tiltölulega lítilli og einfaldri breytingu á lögum um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. En eins og fram hefur komið ber mér að leggja fyrir Alþingi endurskoðað frv. fyrir 1. nóv. næstkomandi. Ég held að við ættum að geyma okkur umræðuna um heildarendurskoðunina þangað til á næsta þingi þegar það mál verður tekið fyrir. Eins og við vitum eru fiskveiðistjórnarlögin í heild sinni í endurskoðun og ekkert óeðlilegt þótt endurskoðun á þessu fylgi að einhverju leyti með.

Ég ætla að reyna að svara þeim spurningum sem til mín hefur verið beint og svarið leiðir eiginlega af því sem ég sagði hér rétt á undan. Hér er verið að gera tiltölulega litla og einfalda breytingu og í tengslum við hana komu hugmyndir um uppboðskerfi eða hlutdeild sjómanna í framsalinu ekki til skoðunar. Ég held að ekki sé tímabært að lýsa viðhorfum til framhalds málsins, þ.e. til endurskoðunar á þessu stigi.

Staða síldveiða er ekki alveg sú sama og hún var þegar þessi lög voru samþykkt. Það hefur orðið ákveðin þróun í stjórn þeirra veiða, samningar hafa náðst um lægri nýtingarstuðul á síldarstofninum sem m.a. er ætlað að gera stofninum kleift að verða enn stærri en hann er í dag til að minnka sveiflur í stærð stofnsins. Eins og kunnugt er samanstendur stofninn í dag nánast eingöngu af einum árgangi. Segja má að vegna þess muni verða miklar sveiflur í stofnstærðinni nánast burtséð frá því hvernig veiðunum verður háttað. Það er hins vegar mikilvægt að við reynum að halda þessum sveiflum í lágmarki því að það leiðir til hagkvæmari nýtingar á fiskiskipaflotanum við að ná aflanum. En þetta getur líka haft þau áhrif að sé stofninn stór þá séu meiri líkur til þess að hann gangi lengra vestur og lengra inn í landhelgi okkar en hingað til.

Inn í þetta spila áhrif af straumum og hitafari sjávar og þá kannski sérstaklega af því hversu langt hin svokallaða kalda tunga eða Pólstraumurinn fyrir austan land nær suður með Austfjörðum. Það hefur áhrif á það hve langt síldin gengur vestur og inn í landhelgina og hvenær hún beygir síðan norður og aftur norðaustur í Atlantshafið. Við höfum verið að sjá breytingar í umhverfi sjávar og þær breytingar hafa frekar bent til að hitastigið væri að hækka. Þegar maður leggur þetta saman, stærð stofnsíldarinnar og breytingar á hitastigi sjávar, vonast maður til að síldin muni ganga lengra vestur, inn í landhelgina hjá okkur og dveljast þar lengur fram á sumarið þannig að líkur séu á því að við getum nýtt hana til manneldisvinnslu. Tilgangur frv. er einmitt að búa þannig í haginn fyrir næstu vertíð að möguleikar á nýtingu til manneldis aukist og að afskipti sjútvrn. af veiðunum verði minni en þau hafa verið.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gagnrýnir að margsinnis hafi þurft að gefa út reglugerðir þegar reynt var að stýra veiðunum. Ég tel ekki gott að þurfa að standa í þessari endurúthlutun en ef það þarf þá skiptir engu máli hvort verið er að endurúthluta einu sinni, tvisvar eða þrisvar. Þá er markmiðið aðeins að ná öllum kvótanum og menn verða þá að aðlaga sig að aðstæðum hverju sinni. Ef það væri til þess fallið að ná kvótanum og ekki aðrir kostir væri ég alveg til í að gefa út reglugerðir einu sinni á dag ef á þyrfti að halda. Markmiðið er að ná öllum kvótanum.

Núna erum við að leitast við að hafa meiri sveigjanleika og að hafa inni í stjórnuninni það markmið að eitthvað af þessum veiðum nýtist til manneldis. Það er m.a. í ljósi breytilegra aðstæðna í hafinu og gert til að útgerðarmenn geti á auðveldari hátt tekið ákvarðanir um veiðar sínar.

Ég á svolítið erfitt með að fjalla um málflutning hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur því að að hluta talar hún eins og lögin séu ótímabundin og að hluta talar hún eins og lögin séu tímabundin. Það er erfitt að bregðast við gagnrýni á tímabundin lög eins og þau væru ótímabundin. Tilvísanir hennar í dóma, miðað við röksemdafærslu hennar, byggjast á því að lögin séu ótímabundin. Þau eru tímabundin og þau ber að endurskoða og leggja fram endurskoðað frv. fyrir 1. nóv. næstkomandi.

Hv. þm. minntist líka á umhverfi dóma. Það er að vísu rétt að dómar hafa sett mark sitt á umræðu um fiskveiðistjórn á undanförnum missirum, leitt til breytinga á lögum á Alþingi og þess að endurskoðunarferlið mun að mínu mati taka lengri tíma en ella. En það þýðir ekki að sitja verði með hendur í skauti og gera ekki neitt meðan beðið er eftir því að dómar falli. Síldarvertíð stendur fyrir dyrum og við þurfum að búa okkur undir hana eins og við best getum. Þess vegna legg ég fram þetta frv. til þess að við eigum auðveldara með að nýta kvóta okkar í norsk-íslensku síldinni á sem hagkvæmastan hátt á næstu vertíð.