Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 14:32:49 (5218)

2000-03-14 14:32:49# 125. lþ. 78.2 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[14:32]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en vegna þátta sem hv. 2. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, dró inn í þessa umræðu, vil ég aðeins segja að þó að ég geri ekki skoðanir hv. þm. í sjávarútvegsmálum sjálfkrafa að mínum og hafi sjálfstæða stefnu í þeim efnum þá þarf hv. þm. ekki að gera þau mistök þar með frekar en hann kýs að stilla mér upp sem algjörum fjandmanni sínum eða andstæðingi í þessum efnum.

Ég held, svo ég reyni að útskýra það fyrir mitt leyti, að það sem aðallega hafi greint okkur að sé að ég hef ekki verið talsmaður hugmynda um stórfelldan auðlindaskatt, tekinn í gegnum uppboðskerfi á veiðiheimildum sem mér virðist að hv. þm. og í vaxandi mæli samflokksmenn hans standi fyrir, að óbreyttu kvótakerfi að öðru leyti. Þar skilur í milli í báðum greinum.

Ég hef varað við afleiðingum þess að setja allar veiðiheimildir á slíkt uppboð. Það gæti orðið háskalegt, a.m.k. ef slíkt uppboð yrði ekki verulega skilgreint og afmarkað þannig að ekki gæti í kjölfarið orðið um óhóflega samþjöppun veiðiheimilda á uppboðinu að ræða, nóg er nú samt. Ég hef líka spurt hvernig menn hugsi sér meðferð veiðiheimildanna á eftirmarkaði, hvort þar eigi þá að verða um algjörlega frjálst brask með hinar leigðu eða keyptu veiðiheimildir á eftirmarkaði að ræða, með svipuðum hætti og ég hygg að leiðarahöfundar Morgunblaðsins hugsi sér útfærslu þessa atriðs.

Hitt skiptir ekki minna máli að að svo miklu leyti sem ég les í gegnum þessar hugmyndir þá skoðun að í framhaldinu og á þessum grunni eigi síðan að vera með óbreytt kvótakerfi þá er ég því mjög ósammála. Ég vil gera á þessu kvótakerfi miklar breytingar. Ég vil t.d. taka strandveiði- og grunnslóðarflotann út úr þessu kerfi og setja um hann sérákvæði þannig að hann hverfi ekki á næstu árum, en í það stefnir. Þar með væri í leiðinni lögð áhersla á vistvænar veiðar.

Ég tel að einhvern veginn þurfi að byggðatengja veiðiréttindi, a.m.k. þess hluta flotans. Það verður að styrkja á nýjan leik stöðu sjávarútvegsbyggðanna og fiskvinnslunnar í landi í þessu kerfi. Annars fer mjög illa og horfir reyndar mjög illa nú þegar fyrir þeim aðilum. Ég hef allan tímann verið þeirrar skoðunar að það ætti að banna leigu veiðiheimilda. Ég tel að það hafi verið hið mesta ólánsspor --- og er ég þó ekki saklaus í þeim efnum --- að leyfa það nokkurn tíma að menn mættu fénýta innan ársins og ár eftir ár þennan afnotarétt að auðlindinni. Það er engin ástæða til þess. Aðlögun að breyttum aðstæðum getur orðið án þess. Fénýting þessara réttinda endurtekið ár eftir ár án þess að menn noti þær sjálfir er að mínu mati og hefur allan tímann verið erfiðast að forsvara af öllu því sem þarna á sér stað.

Ég ætla, herra forseti, ekki að blanda umræðum eða skoðanaskiptum okkar hv. þm. Sighvats Björgvinssonar frekar inn í þessa umræðu um frv. sjútvrh. En hv. þm. hóf þær og hann hafði þær aðallega uppi í seinna svari sínu við andsvari frá mér. Ég átti því ekki kost á að halda þeim orðaskiptum áfram á sama grundvelli. Ég leyfi mér þar af leiðandi að svara þessu hér í nokkrum orðum.

Auðvitað ræður hv. þm. því í hvaða hóp hann reynir að stilla mér í þessum efnum. Ég tók eftir því að eins og stundum áður reyndi hv. þm., og hann er ekki einn um það af hálfu þeirra sem telja sig til svonefndrar Samfylkingar, að gera grýlu úr þeim sem hér stendur í sjávarútvegsmálum, spyrða mig saman við ríkisstjórnina. Gott ef þeir vilja ekki kalla mig sægreifa og annað í þeim dúr. Ég er orðinn býsna vanur slíku. Ég minnist t.d. nokkuð linnulausra greinaskrifa, herra forseti, sumarið, haustið og veturinn 1998 og 1999 frá m.a. hv. þm. Sighvati Björgvinssyni og ýmsum minni spámönnum úr þessum herbúðum. Kjallaragreinar og blaðagreinar í helstu blöðum landsins voru uppfullar af markvissum tilraunum til að taka höfuðið af þeim herðum sem hér eru í ræðustóli með því að draga upp afar neikvæða mynd af því hversu stórháskalegar skoðanir mínar væru í þessum efnum. Það gekk nú ekki betur en svo að höfuðið er nokkurn veginn á réttum stað eða er það ekki, herra forseti?

(Forseti (HBl): Svo virðist.)

Já, og er hér að halda ræðu. Ég því ekkert viss um að áframhaldandi tilraunir hv. þm. í þessum efnum muni skila honum meiri uppskeru en þær hafa gert hingað til. En honum er alveg frjálst að reyna mín vegna. Óhræddur er ég við þau skoðanaskipti og ég segi bara eins og maðurinn forðum: Skammt hef ég runnið fyrir þér.

Ég hvet svo hv. þm. Sighvat Björgvinsson til að kynna sér stefnu Vinstri hreyfingarinnar --- græns framboðs í sjávarútvegsmálum, lesa hana vandlega. Hún er í stuttu en skýru máli, felur í sér tillögur um umfangsmiklar breytingar í sjávarútvegsmálum og þar á meðal grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Auðvitað ræður hv. þm. því hvort hann tekur mark á því eða ekki, hvort hann flytur áfram óbreyttar ræður um stuðning minn við óbreytt kerfi o.s.frv. Það er honum í sjálfsvald sett. En ég hygg að það yrði málflutningur sem dæmdi sig sjálfur og af því yrði lítil uppskera. Það verður lítið hey í hlöðu hv. þm. á komandi haustum ef hann heldur þessum tilraunum áfram.