Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 14:44:31 (5220)

2000-03-14 14:44:31# 125. lþ. 78.2 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[14:44]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. aftur lenda í því fari að álykta þannig að ef menn séu ekki sammála tillögum hv. þm. um hvernig eigi að breyta hlutunum þá séu menn ósammála um markmiðin. Það þarf ekki að vera svo. Getur ekki hv. þm. einnig velt þeim möguleika fyrir sér að þó svo að allir vilji að sjálfsögðu að jafnræðis- og atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar séu virt --- eða er hv. þm. að bera það upp á nokkurn mann hér að svo sé ekki --- þá geti menn greint á um heppilegustu leiðirnar að því marki?

[14:45]

Ég margreyndi að draga upp fyrir hv. þm. í hverju ég teldi að mismunandi leiðir sem við værum að reyna að fara kristölluðust, annars vegar í gjaldtöku- og uppboðshugmyndaleiðum hv. þm. eða Samfylkingarinnar og hins vegar í ýmsum öðrum breytingum á kvótakerfinu sem felast ekki endilega í uppboðshugmyndunum nema kannski síður sé.

Ég bendi hv. þm. á að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og þingflokkur Frjálslyndra hafa sameinast um tillöguflutning og frumvarpsflutning í sjávarútvegsmálum. Finnst hv. þm. líklegt að þeir ágætu þingmenn Frjálslynda flokksins væru að skrifa upp á tillögugerð í sjávarútvegsmálum sem fæli í sér sérstaka varðstöðu um óbreytt kerfi? Finnst honum líklegt að þessir tveir þingflokkar væru að sameinast um einhverja málafylgju sem gengi ekki út á það að varðveita jafnréttisákvæði og atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar? Ég held að við þurfum ekki, herra forseti, að eyða tíma Alþingis í að rökræða um svo fáfengilega hluti. Auðvitað er það svo að menn eru allir með það í huga að þær ráðstafanir sem eru gerðar, þau lög sem eru í landinu uppfylli slík grundvallarákvæði en það er einu sinni þannig og er svo sem ekkert undarlegt við það, jafnviðamikið og flókið mál og hér á í hlut, að menn geti greint eitthvað á um heppilegustu leiðirnar að því marki. Þá er miklu uppbyggilegra og málefnalegra að ræða það þannig.