Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 14:49:55 (5222)

2000-03-14 14:49:55# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[14:49]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Deilur um skiptaverð afla til sjómanna hafa oftast sett svip sinn á kjaradeilur sjómanna og útvegsmanna. Þann 3. febrúar 1998 hófst verkfall á fiskiskipaflotanum um samninga sjómanna og útvegsmanna sem höfðu verið lausir frá því í árslok 1996. Þetta var í þriðja sinn á fjórum árum sem kjaradeilur sjómanna og útvegsmanna leiddu til þess að stærstur hluti fiskiskipaflotans stöðvaðist. Fyrri deilur í byrjun ársins 1994 og vorið 1995 höfðu líkt og deilan 1998 fyrst og fremst snúist um tengsl viðskipta með aflamark og viðskipta með afla. Sjómenn töldu að í mörgum tilvikum hefðu þessi tengsl haft óeðlileg áhrif á skiptakjör og ákvörðun fiskverðs til hlutaskipta í viðskiptum utan fiskmarkaðanna.

Þann 9. febrúar 1998 var lagt fram frv. á Alþingi um stöðvun verkfalla á fiskiskipaflotanum. Í frv. var m.a. gert ráð fyrir að sjútvrh. skipaði þriggja manna nefnd til að kanna verðmyndun á fiski og þá þætti sem hafa áhrif á hana. Þá átti nefndin að gera tillögur sem beindust að því að koma í veg fyrir að viðskipti með sjávarafla milli tengdra aðila og viðskipti með aflaheimildir hefðu óeðlileg áhrif á skiptakjör sjómanna og undirbúa löggjöf í þeim efnum.

Þann 10. febrúar rituðu fulltrúar samninganefndar Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Alþýðusambands Vestfjarða ríkissáttasemjara bréf þar sem óskað var eftir að verkfalli aðila yrði frestað til 15. mars. Sagði í bréfinu að óskin um frestun verkfalls væri sett fram á þeirri forsendu að skipuð yrði nefnd í samræmi við fyrrnefnt frv. er hefði það verkefni að kanna verðmyndun á fiski og þá þætti sem höfðu áhrif á hana. Nefndin átti að skila tillögu sem beindist að því að koma í veg fyrir að viðskipti með sjávarafla milli tengdra aðila og viðskipti með aflaheimildir hefðu áhrif á skiptakjör sjómanna.

Nefndin skilaði tillögu sinni 4. mars 1998. Tillögur nefndarinnar voru þríþættar.

Í fyrsta lagi lagði nefndin til að sett yrði á stofn Verðlagsstofa skiptaverðs. Í öðru lagi að koma á fót opnum tilboðsmarkaði fyrir aflamark, Kvótaþing, og í þriðja lagi að veiðiskylda fiskiskipa yrði aukin frá því sem þá var. Tillögur nefndarinnar voru kynntar deiluaðilum og í framhaldi hófust viðræður milli aðila um nýja kjarasamninga sem byggðu m.a. á þeirri forsendu að tillögur nefndarinnar yrðu lögfestar. Skiluðu þær viðræður engum árangri og fór svo að verkfall á fiskiskipaflotanum hófst að nýju 15. mars.

Í framhaldi af því lagði ríkissáttasemjari fram miðlunartillögu 16. mars. Miðlunartillagan byggði á þeirri forsendu að frv. nefndarinnar yrði að lögum. Tillagan var borin undir atkvæði í félögum sjómanna og útvegsmanna og niðurstaðan varð sú að sjómenn samþykktu hana en útvegsmenn felldu.

Alþingi tók málið til umfjöllunar og voru fern lög samþykkt í lok marsmánaðar. Í fyrsta lagi lög sem settu niður deilur sjómanna og útvegsmanna og þar að auki voru samþykkt þrenn lög sem byggðust á miðlunartillögu ríkissáttasemjara, þ.e. lög um Kvótaþing, lög um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna og breyting á lögum um stjórn fiskveiða.

Tilboðsmarkaður með aflamark hefur starfræktur frá 1. september 1998. Tilboðsmarkaðurinn var settur á fót með lögum nr. 11/1998, um Kvótaþing. Samkvæmt þeim er meginreglan sú að útvegsmenn geta aðeins flutt aflamark á milli skipa í eigu óskyldra aðila að undangengnum viðskiptum á Kvótaþingi. Einnig hefur verið starfandi síðan í júní 1998, samkvæmt lögum nr. 13/1998, Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Hlutverk Verðlagsstofu er að stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna.

Með lögum nr. 12/1998 um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, var 12. gr. síðarnefndu laganna um færslu aflamarks breytt á tvo vegu. Annars vegar til samræmis við lög um Kvótaþing en hins vegar var flutningur aflamarks af skipi umfram aflamark sem flutti til skips takmarkað við 50% af samanlögðu aflamarki sem fiskiskipi er úthlutað í upphafi fiskveiðiárs á grundvelli aflahlutdeildar þess. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði I í lögum um Kvótaþing og bráðabirgðaákvæði í lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna sem og bráðabirgðaákvæði XIX með lögum um stjórn fiskveiða fól ég dr. Birgi Þór Runólfssyni, dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, að framkvæma könnun á því hvaða áhrif lögin hafa haft á íslenskan sjávarútveg, sérstaðlega stöðu og möguleika einstaklingsútgerðarinnar. Dr. Birgir Þór Runólfsson hefur skilað niðurstöðum sínum til mín og skýrslan er til umræðu á Alþingi í dag. Mun ég hér á eftir fara yfir helstu niðurstöður hans.

Megintilgangur þess að setja Verðlagsstofu skiptaverðs og Kvótaþing á fót ásamt nýjum takmörkum á flutningi aflamarks var að gera viðskipti með aflamark sýnilegri og minnka möguleika á að hægt væri að blanda saman viðskiptum með aflamark og viðskiptum með afla. Að baki lá einnig sú afstaða sjómanna að þeir væru með einum eða öðrum hætti að fjármagna kaup útgerða á aflamarki. Að mati skýrsluhöfundar virðist allgóð sátt ríkja meðal hagsmunaaðila með starf Verðlagsstofu. Stofan aflar gagna um verð á afla og afurðum, vinnur úr þeim gögnum og kemur þeim á framfæri m.a. á vefsíðu stofunnar.

Stofan innkallar einnig fiskverðssamninga milli sjómanna og útgerða, gerir reglulegar úrtakskannanir og sendir fyrirspurnir til útgerða þegar svo ber undir. Sá gagnagrunnur sem Verðlagsstofa hefur byggt upp nýtist síðan úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna við það starf hennar að leysa úr ágreiningi um fiskverð.

Fyrirspurnir Verðlagsstofu og innköllun samninga virðist stundum hafa leitt til þess að skiptaverð afla hefur hækkað hjá útgerðum og með því leysast sum mál sem hefðu annars mögulega lent á borði úrskurðarnefndar. Málum sem vísað er til úrskurðarnefndarinnar hefur ekki fjölgað með tilkomu Verðlagsstofu. Hitt er ljóst að þessi gagnaöflun og gagnavinnsla stofunnar hefur ekki stuðlað að auknu samkomulagi hagsmunaaðila um álitamál í úrskurðarnefndinni.

Það sem helst er gagnrýnt er að upplýsingar um fiskverð í beinni sölu eru oft gamlar þegar þær berast Verðlagstofu. Einhverjar útgerðir geta hugsanlega hafa notfært sér tafir í upplýsingastreymi og komist þannig upp með að miða uppgjör við skiptaverð sem er undir viðmiðunarmörkum stofunnar. Ef Verðlagsstofa á að sinna hlutverki sínu á sem bestan hátt verður að bæta á þennan þátt upplýsingastreymis til stofunnar. Skýrsluhöfundur telur að erfitt sé að fullyrða hvort starf Verðlagsstofu og úrskurðarnefndar hafi haft víðtæk áhrif, þ.e. áhrif á skiptaverð í öðrum fyrirtækjum en þeim sem afskipti voru höfð af. Svo virðist sem munur á milli fiskverðs í beinni sölu til fiskverkanda og fiskverðs á innlendum fiskmörkuðum hafi ekki minnkað eftir tilkomu Verðlagsstofu.

Verulega dró úr flutningi aflamarks á fiskveiðiárinu 1998/1999, bæði innan útgerða og milli þeirra. Vergur flutningur á þorskaflamarki milli óskyldra aðila minnkaði um rúm 60% úr 69 þús. tonnum í 25 þús. tonn. Hreinn flutningur á þorskaflamarki dróst einnig saman eða um nær 45 þús. tonn. Einnig dró mikið úr flutningi aflamarks annarra tegunda. Stærri útgerðir flytja meira aflamark frá sér en til sín. Skuttogarar sem flestir eru í eigu stærri útgerða flytja mest aflamark frá sér. Smábátar á aflamarki flytja einnig hlutfallslega mikið frá sér. Flutningur á þorskaflamarki til einstaklingsútgerða fiskveiðiárið 1998/1999 nam rúmlega 4.500 tonnum en var um 11.800 tonn árið áður. Suðurnesjamenn flytja til sín mest þorskaflamark, ríflega 8.500 tonn en það er álíka magn og Norðlendingar flytja frá sér. Hreinn flutningur á þorskaflamarki milli landshluta minnkaði úr rúmum 14 þús. tonnum í tæp 9 þús. tonn milli ára.

Fjöldi kvótalítilla og kvótalausra báta átti viðskipti á Kvótaþingi og voru nokkrir þeirra í hópri stærri kaupenda. Þau fyrirtæki sem mest versluðu á Kvótaþingi teljast öll til 50 stærstu útgerða landsins og keyptu þau til að mynda um 20% af því þorskaflamarki sem um þingið fór. Lítill eða enginn munur er á meðalverði í aflamarkskaupum kvótalítilla útgerða og þeirra kvótameiri.

Frá því að starfsemi Kvótaþings hófst hefur verð á þorskaflamarki hækkað um 20%. Sambærileg og jafnvel meiri hækkun hefur orðið á aflamarki nokkurra annarra tegunda. Hefur af þessari ástæðu verið fullyrt að þessar verðhækkanir séu afleiðingar af tilkomu og starfsemi tilboðsþingsins. Ef verðhækkun þorskaflamarks er hins vegar borin saman við fiskverðshækkanir og afurðaverðshækkanir virðist sem þær séu álíka. Þannig hækkar vísitala saltfiskafurða þorsks frá ágústmánuði 1997 til ágústmánaðar 1998 um 15% og 25% til sama mánaðar 1999. Verðvísitala þorskaflamarks hækkar nokkru minna á báðum tímabilum.

[15:00]

Skýrsluhöfundur segir að langtímasamband virðist vera milli afurðaverðs, fiskverðs og verðs á aflamarki. Ekkert skammtímasamband virðist þó vera milli þessara stærða. Ýmsar skýringar geta átt hér við, m.a. sú að verð á aflamarki flestra fisktegunda sveiflast mikið innan ársins, m.a. vegna þess að gæftir eru misjafnar eftir árstíðum.

Þá verður einnig að hafa í huga að aðrir þættir hafa breyst samhliða stofnun Kvótaþings. Þar má t.d. nefna að framsal á aflamarki var takmarkað við 50% af úthlutuðu aflamarki skips. Sú breyting hefði að mati skýrsluhöfundar ein og sér getað valdið því að verð á aflamarkið hækkaði. Það er því hugsanlegt að áhrif þessara tveggja lagabreytinga sem gerðar voru á sama tíma vinni hvor á móti annarri. Um það er þó ekkert hægt að fullyrða. Þá ber einnig að nefna að úthafsveiðar hafa minnkað og hluti fiskveiðiflotans stundar nú meiri veiðar í lögsögunni.

Eins og áður segir var megintilgangur þess að setja Kvótaþing á fót sá að gera viðskipti með aflamark sýnilegri og koma í veg fyrir að hægt væri að blanda saman viðskiptum með aflamark og viðskiptum með afla. Tilkoma Kvótaþings átti með öðrum orðum að gera útgerðum erfiðara um vik að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum. Þrátt fyrir það telur skýrsluhöfundur að margt bendi til að sjómenn séu enn að taka þátt í kvótakaupum. Um það vitni bæði fiskverð og aflamarksviðskipti einstakra skipa og ummæli forustumanna hagsmunasamtaka.

Þátttaka fiskverkenda í kvótakaupum virðist að hans mati staðreynd og eru fiskverðsmál flækt af þeim ástæðum. Þetta vekur upp spurningar um gagnsemi Kvótaþings í núverandi mynd.

Skýrsluhöfundur telur að ekki verði séð að sú takmörkun á framsali aflamarks í 50% af því aflamarki sem fiskiskipi er úthlutað í upphafi fiskveiðiárs hafi dregið svo úr þátttöku sjómanna í aflamarkskaupum að það réttlæti áframhald slíkrar takmörkunar. Aflamarksviðskipti hafa dregist saman af ýmsum öðrum og fleiri ástæðum en þeirri að löggjöfinni var breytt. Lagabreytingin dró hins vegar enn þá meira úr flutningi aflamarks bæði milli útgerða og innan þeirra. Að þessu leyti leiðir takmörkunin til minni sveigjanleika hjá útgerðum og minni hagkvæmni.

Tilkoma Kvótaþings hefur leitt til þess að opinberar upplýsingar liggja fyrir um viðskipti og verð aflamarks. Fyrirkomulag Kvótaþings leiðir þó til þess að ekki liggur fyrir milli hverra viðskipti eiga sér stað. Má segja að það fyrirkomulag dragi úr sýnileika viðskiptanna.

Skýrsluhöfundur telur að fyrirkomulag Kvótaþings væri betur komið með svipuðu sniði og fyrirkomulag Verðbréfaþings. Viðskipti með aflamark ættu því að geta átt sér stað jafnt innan sem utan slíkrar kauphallar en þó með þeirri kvöð að öll aflamarksviðskipti milli óskyldra aðila séu tilkynnt til kauphallarinnar og upplýsingar um þau birt þar.

Nú þegar skýrslan liggur fyrir og ég hef yfirfarið helstu efnisatriði hennar vænti ég málefnalegrar umræðu á hv. Alþingi. Ég mun síðan í framhaldi af umræðunni eiga viðræður við forustumenn hagsmunasamtaka um þessar niðurstöður.