Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 15:53:13 (5228)

2000-03-14 15:53:13# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[15:53]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að ekki hefur tekist að ná þeim markmiðum sem þarna voru sett. Hins vegar er skýrsluhöfundur að benda á endurbætur á þessu fyrirbrigði sem þarna er verið að tala um og ekki að leggja til að það verði lagt af. Síðan ræddi hv. þm. um framsalið og velti því fyrir sér hvort ætti heldur að hætta því alveg eða leyfa það 100%. Á því er æðimikill munur. Og vegna þess að hann beindi þessari umhugsun sinni til hæstv. ráðherra verður fróðlegt að heyra hverju hann muni vera að velta fyrir sér í þessu efni. Það er slíkur reginmunur á því að leyfa fullkomlega framsal og að hafa það takmarkað með þessum hætti að þar á veltur það hvort menn geta farið að stunda það eingöngu sem atvinnugrein að kaupa og selja veiðiheimildir en ekki vera að standa í útgerð. Þar liggur sá munur alfarið.