Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 15:57:36 (5231)

2000-03-14 15:57:36# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[15:57]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Já, hv. þm., það hefur verið kallað að soðningin, ýsan, sé komin upp í 800 kr. út úr fiskbúð og sumir vilja kalla það okur, hverju sem um er að kenna. En varðandi athugasemd hv. þm. held ég að einmitt sé rétt að ítreka mikilvægi Verðlagsstofunnar, hvað hún skiptir miklu máli ef hún virkar, eins og hún virðist hafa gert í grófum dráttum, hvað hún er mikilvæg fyrir úrskurðarnefndina og sú gagnrýni sem hefur aðallega beinst að henni er að upplýsingastreymið sé ekki nógu hratt og það er kannski meginatriði hvað varðar Verðlagsstofuna.

Ég hygg hins vegar að menn séu almennt sáttir um prinsippið með úrskurðarnefndina þó vissulega muni menn alltaf deila um einstaka dóma, því eins og almennt þegar dómar eða úrskurður er kveðinn upp þá er ekki alltaf sátt um efni einstakra dóma. En ég hygg að í megindráttum séu menn sammála um þetta prinsipp eins og upp var lagt. Hins vegar þarf hugsanlega að skerpa þau tæki og tól sem úrskurðarnefnd hefur til að sinna verki sínu eins og nefndi í ræðu minni. Ég hygg því að það sé ekki ágreiningur um þetta á milli okkar.