Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 15:58:57 (5232)

2000-03-14 15:58:57# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[15:58]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ágreiningurinn snýst um að það er ekki eðlileg verðmyndun á sjávarfangi hér á landi. Annars vegar erum við með mjög hátt verð sem getur í sumum tilfellum á markaði kannski verið hærra en eðlilegt getur talist vegna þess að magnið á markaðnum er lítið. Hins vegar eru menn í beinum viðskiptum sem eru ekki í neinum takti við raunveruleikann. Þess vegna held ég að það sé mjög eðlileg og réttmæt krafa sem sjómenn hafa verið að setja fram að fiskur verði seldur á fiskmörkuðum og þar verði raunverulegt framboð og raunveruleg verðmyndun sem væri þá kannski ekki uppi í 187 kr. en það gæti verið að það væru einhver 130--140 kr. sem væri þá eðlileg verðmyndun á sjávarfangi. Þannig held ég að við ættum að standa að málum. Það er undarlegt í þessu þjóðfélagi þar sem alltaf er talað um frjálsa samkeppni að ekki megi vera frjáls verðmyndun á sjávarfanginu en allt annað skal vera frjálst og þar með kvótabraskið.