Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 16:02:58 (5235)

2000-03-14 16:02:58# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[16:02]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að ég geti verið sammála hv. þm. um að það er mikilvægt að fram fari yfirveguð og málefnaleg umræða um sjávarútvegsmál. En ég ítreka að ég tel að sú þverpólitíska nefnd sem er að störfum að fái frið til þess að vinna málið yfirvegað, einmitt af því að málið er stórt og mikilvægt sem ágreiningur er um. Og það mun sjálfsagt alltaf verða ágreiningur um sjávarútvegsmál á meðan við róum. Þetta er mál sem snertir í raun svo óskaplega mörg svið og það eru svo margar lausnir í umræðunni, eftir því hvort menn koma að norðan þar sem togaraútgerðin er, hvort menn koma af suðvesturhorninu þar sem smábátaútgerðin er öflugri og þannig má áfram telja, t.d. byggðamálin og þar fram eftir götunum. Ég teldi það hins vegar óeðlilegt þar sem þverpólitísk nefnd er að störfum og á að fá frið til að skoða málið í stóru og víðu samhengi, að hv. Alþingi fari að ryðja frá sér frumvörpum um einstaka þætti svona umsvifamikils máls. Það teldi ég óeðlilegt og teldi ég í rauninni að þar með væri verið að lýsa yfir vantrausti á þá nefnd sem ég vænti afskaplega mikils af. Hins vegar á nefndin að fá málefnaleg rök úr umræðum hv. alþingismanna eins og m.a. hafa verið að koma fram í umræðunum hér í dag.