Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 16:25:51 (5242)

2000-03-14 16:25:51# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[16:25]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd voru til þess að fara yfir verðlagningu á afla til sjómanna. Því fyrirkomulagi var ætlað að passa upp á að sjómenn væru ekki hlunnfarnir. Í þessari skýrslu kemur fram að það hafi tekist ágætlega.

Kvótaþingið var aftur á móti hrein og klár mistök. Mig rekur a.m.k. minni til þess að formaður Sjómannasamtaka Íslands hafði mikil og sterk orð um þetta Kvótaþing, hve merkilegt það væri og hve mikla áherslu hann hefði lagt á að með tilkomu þess væru sala og kaup á aflaheimildum gegnsærri en þau hefðu verið.

Ég skal ekki segja nákvæmlega hvaðan þessar hugmyndir komu. Aftur á móti kom ákveðinn pakki inn til þingsins. Þar mátti í raun ekki breyta neinu ella hefði allt hrunið. Menn neyddust í raun til að samþykkja allt þó að betra hefði verið að taka þetta í minni skrefum. (SvanJ: Sjómenn greiddu atkvæði.) Sjómenn voru þar að auki búnir að greiða atkvæði um þetta. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur. Þar með var í raun búið að greiða atkvæði fyrir okkur hér. Ég var mjög ósáttur við þessa niðurstöðu og tel að hún hafi ekki orðið okkur til framdráttar hér í þinginu.