Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 16:29:51 (5244)

2000-03-14 16:29:51# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[16:29]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson og ég erum sammála um að með því að takmarka svona framsalið er náttúrlega verið að takmarka það magn sem fer á markað. Þar með hækkar fiskverð því að það er minna magn á markaðnum. Eins og hv. þm. sagði ræður lögmál framboðs og eftirspurnar þar eins og annars staðar í frjálsu hagkerfi.

[16:30]

Það kemur að sjálfsögðu niður á neytandanum á Íslandi eins og annars staðar í heiminum. Það er hárrétt hjá hv. þm. að ýsukílóið í verslun er núna komið upp í þúsund krónur og er komið verulega upp fyrir verð á lambakjöti og flestu kjöti nema þá helst nautalundum. Við erum því náttúrlega farin að sjá þarna dýrustu fisksteikur sem hafa verið til á Íslandi. Hvort það hækkar meira veit ég ekki, ég held samt að við getum ekki brugðist sérstaklega við innlenda markaðnum nema þá með þeim hætti að labba niður á bryggju og vita hvort menn geti ekki fengið í soðið eins og í gamla daga. Ég veit að t.d. suður með sjó er það enn þannig að maður fær kippu í soðið, eina spyrðu með sér heim, ef maður kemur og hittir karlana og fer að tala við þá. Ég held að ég upplýsi ekki mikið með að segja að maður fer ekkert yfir vigtina þó að maður fái eina hönk með sér í soðið eftir eina ferð niður á bryggju.