Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 16:32:01 (5245)

2000-03-14 16:32:01# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, EKG
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[16:32]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Þegar við ræðum skýrslu hæstv. sjútvrh. um Kvótaþing, Verðlagsstofu skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks er nauðsynlegt að við áttum okkur aðeins á því umhverfi sem var til staðar í þjóðfélagi okkar þegar þau lög sem verið er að fjalla um voru sett. Þá stóð yfir mjög harðvítugt verkfall sjómanna í mjög harðri og að því er virtist illleysanlegri kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna einmitt um þessar mundir fyrir nákvæmlega tveimur árum. Það var til þess að leysa þá kjaradeilu að hæstv. ríkisstjórn lagði fram frv. sem fól í sér þá lagasetningu sem við höfum verið að ræða á grundvelli þessarar skýrslu og þó að stundum sé sagt að allir vildu Lilju kveðið hafa held ég megi segja um þessa lagasetningu að enginn vildi þessa Lilju kveðið hafa. Það hefur auðvitað komið fram að við margir hv. þingmenn, stjórnarliðar, vorum með efasemdir og sumir með skítabragð í munninum, virðulegi forseti, ætli ég orði það ekki svo, yfir þessari lagasetningu. Við vitum líka að bæði talsmenn sjómanna og náttúrlega ekki síður talsmenn útvegsmanna hafa lýst því yfir að það hafi ekki verið óskadraumur þeirra sem hafi ræst með þessari lagasetningu. En þjóðarsátt varð um að vera á móti þessu og samþykkja síðan og það varð eiginlega niðurstaða málsins. Eins og við munum leystist þannig þetta harðvítuga verkfall sjómanna sem við vissum að var á þeim tíma mjög alvarlegt í ljósi þess að á þessum árstíma stendur yfir háloðnuvertíð, hrognataka og fram undan hábjargræðistíminn víða um land þannig að auðvitað vorum við að setja þessi lög í skugga þess ástands.

Það var eiginlega tvennt sem ég hygg að hafi legið til grundvallar og hafi verið meginmarkmiðið með lagasetningunni. Í fyrsta lagi var meginmarkmið að draga úr leiguviðskiptum. Það var krafan sem var uppi að leiguviðskiptin væru að leiða til þess að sjómenn væru að taka þátt í kvótakaupum með óeðlilegum hætti. Þess vegna var það, og menn skulu aldrei gleyma því, eitt af markmiðunum með lagasetningunni að draga úr þessum leiguviðskiptum. Í annan stað var markmiðið að reyna að koma í veg fyrir þátttöku sjómanna í kvótakaupum og það var gert með annars vegar lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og hins vegar með því að setja á laggirnar Kvótaþing.

Þegar við förum síðan að ræða þessi mál verðum við fyrst og fremst að horfa til þessara tveggja meginmarkmiða þegar við erum að draga það fram hvort lagasetningin hafi skilað því sem hún átti að skila. Við getum líka séð það af því bráðabirgðaákvæði í lögunum sem liggur til grundvallar skýrslunni að menn höfðu uppi miklar efasemdir og áhyggjur, kannski á mismunandi forsendum þegar þessi lagasetning var samþykkt.

Í fyrsta lagi þegar við veltum fyrir okkur hvort lögin hafi skilað þeim árangri sem að var stefnt sjáum við að hvað varðar Verðlagsstofu skiptaverðs hafa afskipti hennar yfirleitt orðið til þess að hækka verð til fyrirtækja sem hún hefur verið að skipta sér af, þ.e. til þeirra seljenda, útgerðanna og sjómannanna sem afskipti hafa verið höfð af.

Ég býst við því að flestir líti svo á að þar með hafi þetta borið árangur, að afskipti eða inngrip Verðlagsstofunnar, sem hefur auðvitað alltaf verið kölluð til vegna þess að menn hafa talið að verð væri of lágt, hefur leitt til þess að verðið hefur hækkað. Þá getum við sagt sem svo að að þessu leyti hefur þetta tekist eins og kemur reyndar mjög greinilega fram í skýrslunni.

Í öðru lagi er það alveg rétt að lagasetningin hefur orðið til þess að draga úr aflamarksflutningi á þessu tímabili. Skýrsluhöfundur dregur það fram að þegar búið er að leiðrétta fyrir öðrum þáttum er það mat hans að dregið hafi úr aflamarksflutningi á þorski um 45%, þ.e. úr 37% í 21% á þessu tímabili. Ég held hins vegar að það sé líka nauðsynlegt að átta sig á því að á þessu geta verið aðrar skýringar þó að ég geri síst lítið úr því að lagabreytingin hafi líka kallað þetta fram.

Í fyrsta lagi megum við ekki gleyma því að rækjuaflinn minnkaði á þessu tímabili. Við þekkjum það sem hér erum inni að skip fóru í stórum stíl til rækjuveiða, til að mynda minni ísfisktogararnir. Þegar dró úr aflanum og afkoman í rækjuveiðinni var orðin gjörsamlega óviðunandi hurfu menn aftur til þess að veiða þorsk og þar með dró af þeim ástæðum nokkuð úr framboðinu af kvótanum.

Í öðru lagi vitum við líka að veiðin í Barentshafi var ekki jafngóð og hún hafði verið, sem þýddi það líka að hluti af flota okkar, sem hafði kannski verið þarna norður frá og gat framselt frá sér einhverjar heimildir, varð núna að hverfa til veiða á Íslandsmiðum sem dró aftur úr framsalinu.

Í þriðja lagi, sem kemur einnig fram í skýrslunni, höfðu líka átt sér stað heilmiklar sameiningar fyrirtækja sem hafa þýtt eins og við vitum að menn hafa verið að samræma sóknargetu flota síns betur að aflaheimildunum sem er út af fyrir sig hið besta mál og hefur þá líka orðið til að draga úr þessum leiguviðskiptum. Síðan er það Kvótaþingið og loks er það hin aukna veiðiskylda.

Ég vil segja það, virðulegi forseti, að ég tel að eitt af því sem hljóti alltaf að vera uppi í allri veiðistjórnun, hvort sem við erum að tala um aflamarksstjórnun eða sóknarstýringu, þá verði auðvitað að vera hægt að framselja veiðiréttinn með einhverjum hætti. Það er bara einfaldlega þannig ef við ætlum að reyna að leita að hámörkun arðsins í þessari grein, sem við verðum að gera til hagsbóta fyrir atvinnugreinina, sjómennina og fiskverkunarfólkið, þá verður að vera til staðar framsal. Ég hef hins vegar alltaf verið talsmaður þess að það eigi þrátt fyrir þetta að stefna að því að menn hafi veiðiskyldu. Meginröksemd mín fyrir því er sú að ég tel að ekki eigi að skilja í sundur veiðréttinn og sjávarútveginn og þess vegna sé eðlilegt að þeim aðila, þ.e. útgerðinni sem hafi veiðiréttinn, beri að nýta þennan veiðirétt að svo miklu leyti sem hún getur sjálf. En svo bæti ég því við sem ég nefndi áðan að aldrei er hægt að líta fram hjá því í skynsamlegu aflastýringakerfi að hafa kerfi þar sem er til staðar einhvers konar framsalsmöguleiki á milli útgerða.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að sú niðurstaða skýrsluhöfundar að Kvótaþingið hafi ekki orðið til þess að hækka verð á kvóta kom mér nokkuð á óvart. Nú höfum við heyrt það mjög í umræðunni, og ég hafði litið á það sem gefna staðreynd, að kvótaverð hafi hækkað og það er ekki hægt að horfa fram hjá því. Niðurstaða skýrsluhöfundar hins vegar þegar borið er saman kvótaverðshækkunin á þessu tímabili sem hann hefur haft til athugunar og afurðaverðið bæði í saltfiski og freðfiski er að þetta fylgist nokkuð að.

Að vísu er það svo þegar við skoðum þetta nánar að sveiflurnar eru ekki alveg línulegar, þær eru svolítið misjafnar milli verkunargreina þannig að þetta mál er kannski ekki alveg svona einfalt. Út af fyrir sig er þetta þannig mál að það er erfitt að sanna nokkuð. Ég held t.d. að það sem við höfum verið að sjá upp á síðkastið sé versnandi afkoma í þessum greinum með hækkandi gengi íslensku krónunnar. Það hefði þá með sama hætti væntanlega átt að leiða til þess að verð hefði heldur lækkað á leigumörkuðunum á Kvótaþinginu. Það sýnist mér hins vegar ekki hafa gerst, a.m.k. að neinu viti, fyrir utan það að við skulum ekki gleyma því að þegar við settum lögin á sínum tíma, lögin sem þessi skýrsla fjallar um, var frekar reiknað með því að kvótaverð mundi lækka í kjölfarið. Ég held að út af fyrir sig kunni að vera skýringar á því að það gerðist ekki, m.a. þær sem ég var að rekja, það var ýmislegt annað í umhverfinu sem hefur haft áhrif á bæði framboðs- og eftirspurnarhliðina á þessum markaði þannig að það er auðvitað ekki bara hægt að skella þar skuldinni á Kvótaþingið. Engu að síður er það þannig að þetta svokallaða blinda fyrirkomulag gerir það að verkum að það er ákveðin tilhneiging til þess að hækka verðið.

Við þekkjum það og höfum auðvitað heyrt það og m.a.s. kemur það fram í skýrslunni að menn vinna einhvern veginn þannig á Kvótaþingi að fyrst kemur maður og hann vantar tíu tonn af kvóta. Þá setur hann inn tilboð upp á kannski hundraðkall, það mundi nú ekki þykja mjög hátt reyndar í dag. Þegar það ekki gengur hækkar hann það um einn eyri eða fimm aura eða eitthvað daginn eftir til þess að ná þessu örugglega. Hann les í Mogganum hvað Kvótaþingið skilaði háu meðalverði daginn áður og bætir svo einhverjum aurum eða fimmeyringum ofan á það til þess að tryggja sér síðan nægjanlegt magn af kvóta.

Það er líka athyglisvert sem skýrsluhöfundur vekur athygli á og það er að þetta blinda Kvótaþing gerir það að verkum að viðskiptin eru óskaplega tafsöm. Ég held að það komi fram að boðin séu fram að jafnaði eitthvað um 700--1.000 tonn á dag og einhvern veginn takast ekki samningar. Það er þetta sem er svo óþjált og það er þetta sem leiðir til þess að uppi er sú hugmynd sem mér er kunnugt um, virðulegi forseti, að var rædd á sínum tíma innan sjútvn. Alþingis, að fyrirkomulag þessa Kvótaþings ætti frekar að draga dám af því fyrirkomulagi sem við höfum verið að þróa með okkur í verðbréfaviðskiptunum því að þarna er verið að fást við ákveðin verðmæti hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Ég held, virðulegi forseti, hvernig sem menn líta á þetta mál að í þessu framsalskerfi, sem ég hygg nú að sé býsna almenn skoðun að eigi að vera í einhverri mynd, getur það aldrei verið markmiðið hjá okkur að torvelda viðskipti á milli aðila. Úr því að menn viðurkenna að það eigi að vera framsal getum við ekki verið að búa til eitthvert framsalskerfi sem er svo ómögulegt að menn geta ekkert unnið eftir því og það leiðir til einhverrar bjagaðrar verðmyndunar á þeim markaði sem við erum að tala um að eigi að búa til verð á.

Þess vegna held ég, virðulegi forseti, að menn hljóti a.m.k. að geta komið sér niður á það að úr því að það er niðurstaðan að þetta kerfi er bjagað, að þetta kerfi þrýsti upp verðinu, þá eigum við frekar að reyna að breyta því að lágmarki þannig að það sé þjálla. Það er það sem skýrsluhöfundur er í rauninni að leggja til, það er útfærsla sem felur í sér að kostnaður við það og erfiðleikar við að menn í ólíkum landshlutum eigi viðskipti með aflamarkið sé svona gríðarlega hár.

Menn geta svo velt fyrir sér hvort eigi algjörlega að afnema Kvótaþingið og kannski gæti það orðið niðurstaðan miðað við það enginn vill þessa Lilju kveðið hafa, eins og ég vakti athygli á. Mér sýnist að við ættum að geta komist að sameiginlegri niðurstöðu ef við a.m.k. teljum að það sé óæskilegt að kvótaverð sé hátt og ég er einn þeirra. Ég tel t.d. að það sé markmið í sjálfu sér í fiskveiðistjórnun að menn hafi þægilegan aðgang að fiskveiðistjórnarkerfinu. Við sjáum það að 120 kr. leiguverð í þorski er til þess fallið að koma í veg fyrir að nýir aðilar með litlar aflaheimildir geti haslað sér völl. Þannig er það.

Það kemur líka fram í skýrslunni sem ég held að sé alveg hárrétt að nauðsynlegt sé að styrkja stöðu Verðlagsstofunnar vegna þess að um þá starfsemi ríkir, held ég að segja megi, nokkuð gagnkvæmt traust milli aðila, sjómanna og útvegsmanna. Það sem hefur helst verið fundið að er að verðupplýsingarnar berist allt of seint og séu kannski sögulegt gagn frekar en gagn til þess að hafa not af þegar menn eru að fjalla um þessi mál sín á milli. Þess vegna hygg ég að um það ætti að geta verið sæmilegt samkomulag að breyta þessu á þann veg t.d. að fiskkaupendum sé gert að færa inn öll verð á afla sem þeir kaupa samstundis.

[16:45]

Enn fremur er það rétt sem við þekkjum sem höfum staðið í þessari atvinnugrein að upplýsingar um fiskverð eru ekkert leyndarmál. Í gamla daga fylgdi fiskverðið á hverri einstakri tegund með á uppgjörsblaði sjómanna og mér er ekki kunnugt um að útvegsmönnum hafi látið sér það til hugar koma að reyna að dylja fiskverðið. Það var bara hluti af ráðningarsamningnum eða kaupinu og kjörunum hjá sjómönnum og þess vegna var það auðvitað grundvöllur sem sjómenn urðu að hafa vitneskju um.

Þess vegna finnst mér þetta athyglisvert sem skýrsluhöfundur nefnir að opna beri fyrir upplýsingar um þetta á heimasíðu Verðlagsstofu væntanlega.

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé mjög gott plagg og mjög góður grundvöllur til að fara yfir þessa umdeildu lagasetningu. Þótt ég sé ekki alveg sannfærður um allt sem skýrsluhöfundur kemst að niðurstöðu um þá finnst mér hann hafa bent hér á mjög athyglisverða hluti og við í sjútvn. þingsins notuðum tækifærið strax og áttum ágætan fund með höfundi skýrslunnar sem ég hygg að hafi orðið til þess að okkur er betur ljós kjarni málsins og ætti að hafa gert það að verkum að við gætum rætt þessi mál af meiri þekkingu sem er forsendan fyrir því að við getum komist að skynsamlegri niðurstöðu.