Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 16:49:18 (5247)

2000-03-14 16:49:18# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[16:49]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. 4. þm. Vestf. um að eins og málið var undirbúið á sínum tíma var það hugsað sem innlegg inn í mjög erfiða kjaradeilu. Ég hef alveg gert mér grein fyrir því að þó að ég hafi mjög miklar athugasemdir og efasemdir um þetta Kvótaþing og gæti fyrir mína parta, ef ég fengi einn að ráða og ég held að það væri til bóta, hugsað mér að afnema Kvótaþingið strax. En ég geri mér hins vegar grein fyrir því að veruleikinn er sá að það verður ekki gert einhliða a.m.k. ekki án þess að menn eigi umræður og viðræður um það.

Ég tel að einn mesti kosturinn við skýrslu þá sem við höfum hérna sé sá að hún er af hálfu höfundarins mjög vel unnin og mjög margar hliðar eru skoðaðar, og ég held að það væri a.m.k. mjög ósanngjarnt að halda því fram að höfundur skýrslunnar sé vísvitandi að reyna að draga taum einhvers aðila í þessum efnum. Mér finnst að það sé einmitt verið að varpa nýju ljósi á umræðu sem hefur kannski verið dálítið þokukennd, m.a. um það hver ástæðan er fyrir því að verð á kvótamörkuðunum hefur verið að hækka þetta mikið. Ég held að sú umræða hafi á vissan hátt verið dálítið einhliða í þeim efnum.

Ég verð hins vegar að segja að menn verða náttúrlega að skoða þetta mál í eðlilegu samhengi. Lagasetningin var til þess gerð að reyna að draga úr framsali, það var yfirlýst markmið, annaðhvort með því sem er kallað framsalsskyldu eða veiðiskyldu. Þess vegna geta menn ekki komið eftir á og sagt að það að dregið hafi úr framsali hafi endilega verið neikvætt heldur er það einfaldlega afleiðing af lagasetningunni til viðbótar því sem við hv. þm. höfum verið að draga fram að gerðist að öðru leyti.

En ég held að við hv. þm. séum alveg sammála um að þessi mál verði að reyna að nálgast helst með þeim hætti að hægt sé að komast að niðurstöðu en eftir sem áður er lagasetningarvaldið Alþingis.