Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 17:21:35 (5257)

2000-03-14 17:21:35# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[17:21]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi komið fram í minni stuttu ræðu áðan að sveitarfélagið Grenivík á þann kvóta sem þeir ráða yfir, það er alveg rétt.

En málið snýst um það, hv. þm. Jóhann Ársælsson, að ég er að draga það fram að þessi tilraun til byggðatengingar er á mjög veikum grunni vegna þess að magnið er svo lítið. Ég held að allt önnur staða hefði verið uppi ef menn hefðu í alvöru viljað fara þá leið að gera tilraun með byggðakvóta þó svo að það væri í gegnum Byggðastofnun. Ef menn hefðu viljað gera þetta í alvöru hefði þurft að losa um miklu meira kvótamagn. Sumir hafa talað um að það hefði þurft að losa 15--20 þús. tonn ef menn hefðu viljað gera þetta af alvöru.

Ég held að það hafi verið mjög mikill vandi að búa til úthlutunarreglur fyrir 1.500 tonn miðað við þann grunn sem lagður var í málinu. Því gagnast þetta engan veginn, eins og kom fram áðan í ræðu minni. Þetta er svo lítið magn sem fellur til hvers staðar að vonlaust er að það skapi á nokkurn hátt grunn til að gera út og ég tala nú ekki um til að vinna.

Þetta er mergurinn málsins. Ef menn vilja fara í byggðakvóta þá þarf að gera það grunnhugsað á miklu myndarlegri nótum en hér hefur verið lagt upp með.