Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 17:48:17 (5264)

2000-03-14 17:48:17# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[17:48]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Byggðastofnun treysti sér ekki til þess að fara að tillögu þeirra í Vesturbyggð um hvernig ætti að úthluta þessu. Ég held reyndar, það er skoðun mín, að það hefði hún vel getað gert ef vilji hefði verið til þess en hann var ekki til staðar. Ég fer ekkert ofan af því að þarna fór fram handval og samningar við fyrirtæki án þess að einhverjar almennar reglur eða almenn aðkoma fyrirtækja að þessu máli kæmi til. Ekki þarf annað en að spyrja þá sem eiga heima á þessum svæðum og vildu fá tækifæri til að taka þátt í því að nýta þennan byggðakvóta til að fá þau svör mjög víða á þessum stöðum að þeim hafi ekki verið gefin slík tækifæri. Þannig er það nú. Þeir upplifa það a.m.k. þannig á þessum stöðum. Ég byggi afstöðu mína á því að þarna hafi ekki verið staðið beinlínis þannig að málum að það hafi verið einhverjar almennar reglur eða mönnum hafi verið gefin almenn tækifæri til þess að taka þátt í því sem þarna fór fram.

Ég dreg þá ályktun af svari hv. þm. að ef miklu stærri kvóti yrði til ráðstöfunar, þyrfti að skoða málin öðruvísi, að hann sé kannski ekki endilega viss um að þetta séu bestu tillögurnar.