Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 17:49:58 (5265)

2000-03-14 17:49:58# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[17:49]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru út af fyrir sig engin ný sannindi að ekki voru allir ánægðir með hvernig staðið var að úthlutun byggðakvótans, hvorki hvernig staðið var að því að búa til þessar almennu reglur sem höfðu það í för með sér að þessi tilteknu byggðarlög fengu kvótann til ráðstöfunar og menn voru heldur ekki alveg sáttir um það hverjir komu síðan að því að veiða kvótann og vinna. Miklu fleiri voru kallaðir en útvaldir í þeim efnum. Það voru einfaldlega fjölmargir í flestum stöðunum sem vildu veiða kvótann, mun fleiri en hægt var að koma við nema ef menn ætluðu að gera það þannig að veiða eitt eða tvö tonn sem allir sáu náttúrlega í hendi sér að gat ekki verið markmiðið með þessum byggðakvóta því markmiðið var ekki síður byggðatengt. Það var að reyna að styðja við byggðirnar. Markmiðið var ekki bara að tryggja að allir sem sýndu því áhuga að fá að veiða úr byggðakvóta gætu veitt úr byggðakvóta. Ég hef hvergi nokkurs staðar rekist á það, hvorki í lögunum, greinargerðinni né í umræðum sem fram fóru að það hefði verið markmiðið. Markmiðið var að reyna að búa til byggðakvóta sem væri líklegur til að styrkja byggðir sem hefðu farið halloka og það var það sem menn voru að reyna að vinna eftir þegar Byggðastofnun setti sínar reglur og þegar hún vann síðan úr þessu. Út af fyrir sig held ég að hv. þm. skilji það mætavel. Það leiðir síðan til þess --- vegna þess að við vorum að fara með heimildir sem mjög margir vildu komast í því að þetta voru heimildir sem menn ella höfðu þá ekki til ráðstöfunar og það kallaði auðvitað á umfram eftirspurn. Niðurstaðan varð sú að svara þessu með þeim hætti sem þarna var gert. Ég vil vekja athygli á því að lokum vegna þess að hv. þm. hafði efasemdir um að það hefði verið rétt hjá mér að lagalegar forsendur skorti fyrir því að hefja almennt útboð á þessum heimildum. Ég vil vekja athygli á því að þetta frv. sem liggur fyrir hefði tæplega verið lagt fram nema menn hefðu talið vera til þess einhverja ástæðu eða að þess þyrfti. Það þyrfti að setja ný lög til að hægt væri að bjóða út þessar aflaheimildir.