Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 19:07:59 (5287)

2000-03-14 19:07:59# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[19:07]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Veruleg breyting virðist hafa orðið á stefnu Framsfl. í sjávarútvegsmálum og ég tel hana mikil tíðindi. En það er full ástæða til að taka mark á því vegna þess að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er í forsvari fyrir Framsókn á öllum sviðum varðandi sjávarútvegsmál á þessum tímum og hlýtur að tala fyrir hönd flokksins.

Mig langar til að spyrja hv. þm.: Ef hugmyndir hans um byggðakvóta og tengingu kvótans við byggðirnar verða að veruleika, með hvaða hætti telur hann að eigi að úthluta þessum kvóta til byggðarlaganna?

Ég fagna líka þeim ummælum hans að óbreytt kerfi gangi ekki og tek þau ummæli þannig að hann telji að í vetur verði ráðist í að breyta þessu kerfi. Mér finnst mjög mikilvægt að fá svör við því hvernig koma eigi veiðiheimildunum og réttinum til þess að nýta þær í hendur þeirra sem eiga að fá þær.