2000-03-15 13:32:49# 125. lþ. 79.94 fundur 378#B yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga um hækkun tryggingabóta# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 125. lþ.

[13:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga er sérstaklega vísað í fyrirhugaðar breytingar á greiðslum almannatrygginga. Þegar þessi yfirlýsing er skoðuð fæ ég ekki betur séð en alvarlegir hlutir séu að gerast. Það er ekki nóg með að bilið sé að aukast á milli þeirra sem eru á lágum kauptöxtum og hinna sem þurfa að reiða sig á bætur almannatrygginga. Þetta sjáum við þegar við skoðum þróunina sem orðið hefur á grunnlífeyri elli- og örorkubóta og tekjutryggingunni annars vegar og lægstu kauptöxtum hins vegar.

Frá árinu 1993--1999 hækkuðu lágmarkslaun um 52%, en grunnlífeyrir og tekjutrygging, þar með taldar eingreiðslur, um 26%. Þarna er helmingsmunur og ef við lítum fram á veginn mun að óbreyttu enn gliðna þarna á milli. Þetta er nógu slæmt út af fyrir sig, reyndar svo slæmt að við það verður ekki unað.

Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort yfirlýsing ríkisstjórnarinnar feli í sér annað og meira. Þá er ég að tala um beina skerðingu frá því sem nú er lögboðið. Þegar ríkisstjórnin reif tengslin á milli lágmarkslauna og bótagreiðslna úr sambandi haustið 1995 var því ákaft mótmælt af hálfu samtaka elli- og örorkulífeyrisþega og samtaka launafólks og þótt ekki væri fallist á að koma þessum tengslum á að nýju fékkst það í gegn árið 1997 að lögfest var eftirfarandi ákvæði sem er að finna í 65. gr. almannatryggingalaga: Bætur almannatrygginga skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni en --- og nú vitna ég, með leyfi forseta, orðrétt í greinina --- ,,taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.``

Lítum á framkvæmd þessara laga og horfum til síðasta árs. Hver skyldi verðlagsþróun hafa verið á síðasta ári? Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar nam hún 5,8%, þannig að hækkanir í almannatryggingakerfinu hefðu að lágmarki átt að nema 5,8% samkvæmt landslögum.

En hver skyldi hafa verið hækkun launa? Á þessu tímabili hækkaði launavísitala um 6,8% og þar sem þessi hækkun er meiri en nemur verðlagsvísitölu hefðu bætur almannatrygginga átt að hækka um 6,8% að lágmarki. En hver var hækkunin í reynd? Hún var 5,73%. Með öðrum orðum, ríkisstjórnin hefur ekki einu sinni farið að lögum gagnvart öryrkjum og ellilífeyrisþegum á nýliðnu ári og það sem meira er, ef ríkisstjórnin fylgir þeirri yfirlýsingu sem hún hefur sent frá sér og verðbólga yrði áfram svipuð og hún er nú, 5,8%, þá væri hún að hafa lögboðnar kjarabætur af öldruðum og öryrkjum sem er skammtað 4,5% á árinu.

Ég ítreka það sjónarmið mitt að greiðslur til öryrkja og lífeyrisþega á að sjálfsögðu ekki að miða við minna en lægstu kauptaxta og eins og ég gat um hafa þeir hækkað helmingi meira á síðustu sjö árum en greiðslur í almannatryggingakerfinu og enn á að auka þann mun ef fer fram sem horfir. Ef ekki á að miða við lægstu kauptaxta sem er eðlilegt að gera, þá verður ríkisstjórnin að gera sér grein fyrir því að hún er bundin af landslögum að taka mið af almennri verðlags- og launaþróun í landinu. Með öðrum orðum, yfirlýsing ríkisstjórnarinnar er í besta falli blekkingaleikur, í versta lagi hefði hún í för með sér lögbrot og kjaraskerðingu fyrir lífeyrisþega og öryrkja. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar gagnvart öldruðum og öryrkjum gefur þessum hópum ekki meiri kjarabætur en núverandi lög kveða á um, en útkoman getur hins vegar orðið lakari. Hvernig skýrir hæstv. forsrh. að í nafni ríkisstjórnarinnar skuli vera borinn á borð annar eins öfugmælaboðskapur og fyrirheitin í yfirlýsingunni um kjarabætur öryrkjum og öldruðum til handa ber vitni um?