2000-03-15 13:44:12# 125. lþ. 79.94 fundur 378#B yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga um hækkun tryggingabóta# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 125. lþ.

[13:44]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég hef sem ráðherra tryggingamála átt gott samstarf við flesta forustumenn öryrkja í landinu. Með samvinnu, samráði og málamiðlun hefur okkur á margan hátt tekist að bæta mjög stöðu margra öryrkja. Að sumu leyti hefur einmitt þessi ríkisstjórn komið meira til móts við öryrkja en þær sem setið hafa hér á landi síðustu tvo áratugina.

Virðulegi forseti. Ég hef átt gott samstarf við Hauk Þórðarson, fyrrv. formann Öryrkjabandalagsins, við framkvæmdarstjórann Helga Seljan og Guðríði Ólafsdóttur, starfsmann samtakanna. Við sameinuðumst um það í árslok 1998 að draga úr jaðaráhrifum tekna vegna vinnutekna maka. Í þetta fóru hundruð milljóna kr. og þarna var stigið fyrsta skrefið í viðleitni til að draga úr bótaskerðingu vegna tekna maka.

Fyrir rúmu ári átti ég fund með þessum sömu forustumönnum Öryrkjabandalagsins og í sameiningu settu þau upp forgangslista yfir atriði sem talið var mögulegt að ná fram og voru brýnust. Efst á þeim lista var hækkun dagpeninga vistmanna á stofnunum. Þeir voru hækkaðir. Næst var að breyta bifreiðakaupastyrkjum að ósk öryrkja. Það var gert og að því máli kom einmitt Arnór Pétursson, formaður Sjálfsbjargar.

[13:45]

Þá var lögð áhersla á að bæta stöðu einstæðra mæðra í hópi öryrkja. Það var einnig gert. Þetta var gert á síðasta ári, ekki með lúðrablæstri eða söng. Við breyttum þessu einfaldlega vegna þess að það var mögulegt og það var sanngjarnt. Í þetta setti ríkisstjórnin um 700 millj. kr. ásamt ýmsum öðrum úrbótum.

Á þetta vil ég minna og ég vil minna á mikilvægi samvinnunnar og samstöðunnar þegar við erum að vinna að málefnum öryrkja og aldraðra.