2000-03-15 13:46:15# 125. lþ. 79.94 fundur 378#B yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga um hækkun tryggingabóta# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 125. lþ.

[13:46]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Þeir aðilar sem erfiðast eiga uppdráttar í þjóðfélaginu eru einmitt þeir sem ríkisvaldið hefur tekið upp á sína arma.

Mat á stöðu öryrkja nú er að nokkur þúsund Íslendingar eigi í erfiðleikum með lífeyri sinn og að margir hverjir búi raunar við sára fátækt, samanber nýlega könnun Rauða kross Íslands. Þetta fólk er eiginlega statt á milli kerfa og byggir flest afkomu sína að mestu eða öllu leyti á lífeyrisgreiðslum almannatryggingakerfisins, en þar eru hámarksgreiðslur nú um 70 þús. kr. á mánuði.

Um er að ræða fólk á ýmsum aldri. Annars vegar eru ellilífeyrisþegar sem hafa skilað þjóðfélaginu drjúgu ævistarfi og lagt í hendur afkomendum sínum undirstöður hins íslenska velferðarkerfis. Hins vegar er um að ræða öryrkja á ýmsum aldri, m.a. ungt fólk sem hefur af ýmsum ástæðum annaðhvort misst heilsu og starfsorku eða aldrei fengið tækifæri til að vera virkir þjóðfélagsþegnar. Þessi hópur er því jafnvel enn verr settur en sá fyrrnefndi, þ.e. ellilífeyrisþegar.

Af kjarasamningum Flóabandalagsins og yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar má ráða að hagur þessa fólks muni ekki batna á næstu árum. Þar er enn á ný verið að reikna prósentutölur ofan á allt of lágan grunn.

Verði ekkert að gert verða bætur öryrkja í lok samningstímans í janúar árið 2003, einungis um 76.000 krónur eða 15.000 krónum lægri en lágmarkslaunin sem þá eiga að taka gildi. Við svo búið má ekki standa og ber að lagfæra stöðu öryrkja frekar en orðið er.