2000-03-15 13:52:29# 125. lþ. 79.94 fundur 378#B yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga um hækkun tryggingabóta# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 125. lþ.

[13:52]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur hvað eftir annað lýst því yfir að mikið fall hafi orðið á kaupmætti lífeyrisgreiðslna á þeim tíma sem þeir flokkar sem standa að Samfylkingunni sátu í ríkisstjórn og á hann þá við kreppuárin frá 1987--1995. Það er alveg rétt.

Hins vegar gleymir hæstv. forsrh. því að lungann af því tímabili störfuðu hér ríkisstjórnir undir forustu Sjálfstfl. og meginhlutann af þeim tíma ríkisstjórn undir hans forustu.

Það var hins vegar ein þumalfingursregla sem þessar ríkisstjórnir höfðu og hún var sú að kaupmáttur bóta örorku- og lífeyrisþega skyldi ekki skerðast meira en kaupmáttur þeirra sem lægstu launin fengju í þjóðfélaginu. Og við stóðum við það. Ég bað kjararannsóknarnefnd að láta mig hafa útreikninga sína á kaupmættinum. Þar kemur í ljós að okkur tókst á þessum erfiðleikaárum að halda þannig á málum að kaupmáttur lífeyrisþega skertist um 10% minna en kaupmáttur lægstu launa. Og við lofuðum því, hæstv. forsrh., að við skyldum bætta þessa skerðingu upp þegar betur færi að ára. Og það gerðist árið 1995.

En hvað hefur gerst síðan? Síðan hefur það gerst samkvæmt upplýsingum kjararannsóknarnefndar að kaupmáttur lágmarkslauna hefur aukist um 37,5% en kaupmáttur lífeyrisgreiðslna um 11,2% eða um þriðjunginn af því sem kaupmáttur lágmarkslauna hefur batnað. Og nú stendur til, herra forseti, að auka kaupmátt lágmarkslauna um 30% en kaupmátt lífeyristekna um 12%.

Hæstv. forseti. Ég minni hæstv. forsrh. á það loforð sem við gáfum saman, að þegar betur færi að ára yrði öryrkjum og lífeyrisþegum bætt þess skerðing. Ég ætla, virðulegi forseti, með þínu leyfi, að afhenda hæstv. forsrh. útreikning kjararannsóknarnefndar þessu til staðfestingar.