2000-03-15 13:54:45# 125. lþ. 79.94 fundur 378#B yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga um hækkun tryggingabóta# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 125. lþ.

[13:54]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það sem við stöndum nú frammi fyrir er alvarlegt mál. Þeir sem verst eru settir í þjóðfélaginu eiga mest undir samhjálpinni til þess að geta lifað lífinu með reisn og þeir eiga það undir hæstv. ríkisstjórn og Alþingi að það takist. En þeir þurfa enn á ný að lúta. Réttur þeirra, möguleiki, virðing og staða skal æ vera fyrir borð borinn þegar verið er að deila út köku ríkisins, deila út kjörum.

Það er lofsvert að kaupmáttur launa og bóta skuli hækka og vissulega er það alveg sjálfsagt í því góðæri sem við nú búum við. En hitt er óþolandi, herra forseti, að við skulum enn á ný upplifa það að þessir hópar þjóðfélagsins skuli enn búa við lítillækkun og að þurfa að sækja sinn rétt eins og við nú hér upplifum.

Herra forseti. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að endurskoða ákvörðun sína sem hún nú hefur gefið út eða kannski gefa út nýja yfirlýsingu og enn þá betri við gerð næstu kjarasamninga sem nú eru í farvatninu því að kjarasamningum er ekki lokið.