2000-03-15 13:56:44# 125. lþ. 79.94 fundur 378#B yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga um hækkun tryggingabóta# (umræður utan dagskrár), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 125. lþ.

[13:56]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Upphrópanir og áróður stjórnarandstöðunnar og ýmissa annarra á undanförnum mánuðum um bága stöðu velferðarmála hér á landi eru fjarri sannleikanum. Nú er bætt um betur og reynt að gera ríkisstjórnina enn eina ferðina tortryggilega þegar raunin er sú að með yfirlýsingu sinni í tengslum við kjarasamninga á almenna markaðnum sem undirritaðir voru um síðustu helgi, voru gefin loforð um bættan hag almennings sem munu hafa áhrif á alla þjóðfélagshópa. M.a. voru gefin loforð um hækkun persónuafsláttar og breytingu á viðmiðunum skattleysismarka, minnkaða tekjutengingu barnabóta og hækkun tekjuskerðingarmarka þeirra, að greiðslur almannatrygginga hækki í takt við laun og að unnið verði að lengingu fæðingarorlofs. Þessar breytingar munu sérstaklega koma láglaunafólki til góða, þar með talið bótaþegum þar sem hækkun skattleysismarka skilar sér að fullu til bótaþega og eykur ráðstöfunartekjur þeirra. Öll þessi atriði eru í samræmi við óskir og vilja verkalýðshreyfingarinnar og hafa forustumenn hennar lýst því yfir að ríkisstjórnin hafi með yfirlýsingu sinni tekið myndarlega á þessum málum og komið hafi verið til móts við allar kröfur þeirra.

Árangur íslenska velferðarkerfisins er að mörgu leyti góður og lífskjör meiri hluta þjóðarinnar eru sambærileg við það besta sem þekkist meðal almennings á Vesturlöndum. Þetta er einkunn sem Stefán Ólafsson gefur íslenska velferðarkerfinu í bók sinni. En þrátt fyrir þessa góðu einkunn þarfnast nokkur atriði sérstaklega skoðunar og eitt þeirra er staða langveikra. Í því sambandi vil ég sérstaklega vekja athygli á stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna sem kynnt var í gær. Þar er tekið á ýmsum þáttum í bótakerfinu sem snúa að þessum hópi og er verulega til bóta.

Ég vil því ítreka að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar mun hér eftir sem hingað til standa vörð um íslenska velferðarkerfið, skoða þau atriði sem sérstaklega þarf að lagfæra og fylgja fast eftir því markmiði sínu að bæta áfram hag almennings í landinu.