Póstburður

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 14:15:18 (5312)

2000-03-15 14:15:18# 125. lþ. 80.1 fundur 324. mál: #A póstburður# fsp. (til munnl.) frá samgrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[14:15]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Sú yfirlýsing sem kom frá hæstv. ráðherra um að það ætti að taka upp fimm daga dreifingu á flestum stöðum landsins í dreifbýlinu er vissulega af því góða en um leið hafa verið tilkynntar fyrirhugaðar lokanir á póststöðvum vítt og breitt um landið. Nú þegar hafa nokkrar verið framkvæmdar en á Suðurlandi er t.d. talað um lokun á póststöð í Vík, Klaustri, Flúðum og Laugarvatni. Ég dreg það í efa ef velja á milli þessarar þjónustu, rekstri póstöðva og þess að fá fimm daga dreifingu á póstinum, að valið yrði að fá dreifinguna í lag hjá þeim sem þarna eiga hlut að máli.

Við þurfum líka að huga að því að hafa ISDN-tengingu fyrir dreifbýlið þannig að íbúar þar geti stundað fjarvinnslu sem er alltaf verið að tala um sem aukna atvinnumöguleika. Það að fara í þessa miklu dreifingu veldur líka aukakostnaði, ekki bara hjá Vegagerð ríkisins heldur einnig hjá sveitarfélögunum hvað varðar snjómoksturinn og þess vegna fannst mér ánægjulegt að hæstv. ráðherra skyldi muna eftir því að taka það sérstaklega fram. En ég dreg í efa að þetta sé forgangsmál.