Póstburður

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 14:19:52 (5315)

2000-03-15 14:19:52# 125. lþ. 80.1 fundur 324. mál: #A póstburður# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[14:19]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég tek eftir því í ræðum manna á Alþingi að þingmenn vinstri grænna virðast ekki hlusta á þau svör sem þeir kalla eftir. Hér koma tveir þingmenn úr þeim stjórnmálaflokki, hv. þm. Jón Bjarnason fyrirspyrjandi og hv. þm. Þuríður Backman, og fullyrða að verið sé að leggja niður tugi póstafgreiðslustöðva á Íslandi eins og hv. þm. Jón Bjarnason sagði. (JB: Ég fullyrti það ekki, það gengur orðrómur um það.) Það er ágætt ef þingmaðurinn hefur góðan aðgang að orðrómi landsins og það er út af fyrir sig ágætt. Hins vegar væri miklu mikilvægara að hv. þingmenn hefðu einhverjar staðreyndir fyrir sér um þetta.

Það sem verið er að gera á Íslandi og ég skilgreindi mjög rækilega í svari mínu áðan fyrir þá sem voru í þingsalnum þá, er að verið er að leggja á ráðin um stóraukna þjónustu. Er það ekki aðalatriðið? Er það bara aðalatriðið að halda úti stofnunum með stórum staf þó að þær hafi ekki sérstakan skilgreindan tilgang, markmið eða skyldur eins og hv. þm. og fyrirspyrjandi nefndi réttilega að þarf að hafa? Nei, aðalatriðið er það sem kom fram í svari mínu að verið er að leggja á ráðin um aukna þjónustu, aukna dreifingu póstsins í landinu en til þess að það megi verða þurfum við einnig að hagræða. Í undirbúningi er breyting á lögum um banka og sparisjóði sem auðveldar þetta þannig að hægt er að sinna þessari afgreiðslu inni í bönkum og sparisjóðum þar sem það á við.

En aðalatriðið sem ég vildi að kæmi rækilega fram í lokin, herra forseti, en virtist ekki hafa komist til skila hjá hv. þm. er að það er verið að auka þessa þjónustu og það stendur ekki til þó að óskir samfylkingarmanna kunni að standa til þess að selja býsna stórar ríkiseignir. Það stendur ekki til, eins og kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni, að selja Íslandspóst hf.