Tækjabúnaður til að minnka koltvísýringsmengun

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 14:25:42 (5317)

2000-03-15 14:25:42# 125. lþ. 80.2 fundur 330. mál: #A tækjabúnaður til að minnka koltvísýringsmengun# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[14:25]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. Gísli S. Einarsson ber upp fyrirspurn í tveimur liðum. Í 1. lið segir:

1. Hefur á vegum ráðherra verið athugaður tækjabúnaður frá fyrirtækinu Comtec og árangur tilrauna með notkun Comtec-búnaðar samhliða hvarfakút til að minnka koltvísýringsmengun af dísil- og bensínvélum í skipum og ökutækjum og ef ekki, hvers vegna ekki?

Á árunum 1993--1995 prófaði Vegagerðin búnað í bíla sem hét þá Powerplus eða Cleanburn frá DEB-þjónustunni á Akranesi og staðfest er að þetta er sambærilegur búnaður og Comtec-búnaðurinn. Einhver þróun í framleiðslu hefur þó átt sér stað en í aðalatriðum er þetta sami búnaðurinn. Vegagerðin lét setja slíkan búnað á nokkra bíla og tæki stofnunarinnar. Þetta var gert í samráði og samvinnu við seljanda búnaðarins og Vélskóla Íslands. Vélskólinn sá um mælingar og prófanir við stýranlegar aðstæður á vél í vélasal skólans. Benda má að öðru leyti á að gerð og búnaður ökutækja heyrir undir dómsmrn. en eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda lá ekki alveg ljóst fyrir hvar eðlilegast væri að bera niður til að fá fyrirspurninni svarað.

Í máli sem varðar varnir gegn mengun sjávar frá skipum er hlutverk Siglingastofnunar að annast eftirlit með skipum og búnaði þeirra samkvæmt reglum sem umhvrh. setur og þar sem stofnuninni er falið slíkt hlutverk. Í slíkum reglum eru engin ákvæði í gildi nú um varnir gegn loftmengun frá skipum. Búnaður sem dregur úr slíkri mengun hefur því ekki verið skoðaður sérstaklega af hálfu Siglingastofnunar. Ráðuneytið telur að lokum að spurning þessi þar sem spurt er gagngert um einn tiltekinn framleiðanda sé nokkuð einstök. Það telur jafnframt að vilji þessi tiltekni framleiðandi ná árangri í sölu á búnaði sínum, þá þurfi að koma fram vottun hans frá löggiltum aðila þar sem segir skýrum stöfum hvaða áhrif hann hefur til minnkunar á mengun og eyðslu. Með slíka vottun í höndum ætti árangur í sölu varla að láta á sér standa.

Seinni hluti fyrirspurnarinnar hljóðar svo:

2. Hefur ráðherra kannað þann möguleika að styðja fyrirtæki sem vilja nota tækni til að minnka mengun, t.d. með lánum með lágum vöxtum eða skattaaðgerðum, eða telur ráðherra slíkan stuðning koma til greina?

Almennt má segja að það sé ekki hlutverk ríkisins að styrkja einhvern einstakan framleiðanda á tilteknum búnaði og er reyndar óeðlilegt að mati ráðuneytins. Hins vegar eru miklir möguleikar að fá styrki til rannsókna og þróunar á vegum rannsóknasjóða sem ríkisvaldið er oftast beinn eða óbeinn aðili að.

Rétt er að benda á að víða eru fyrirtæki sem nota tækni sem dregur úr mengun styrkt á einhvern hátt. Þetta er reyndar staðreynd hér á landi þar sem bílar sem kallast geta umhverfisvænni fást fluttir inn með verulegum ívilnunum á aðflutningsgjöldum. Þetta eru nokkur fyrirtæki, m.a. á vegum sveitarfélaga og ríkisins, þegar farin að nýta sér.

Um það hvort samgrn. mundi beita sér fyrir frekari ívilnunum á þessu sviði skal ósagt látið en sá möguleiki er þó vel fyrir hendi.