Eldi þorsks og annarra sjávardýra

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 14:33:46 (5320)

2000-03-15 14:33:46# 125. lþ. 80.3 fundur 343. mál: #A eldi þorsks og annarra sjávardýra# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[14:33]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Eldi sjávardýra við Íslandsstrendur hefur af ýmsum ástæðum orðið minna en hjá nágrönnum okkar Norðmönnum og Skotum. Helsta ástæðan er eflaust sú staðreynd að laxeldistilraun okkar á níunda áratugnum varð gjaldþrota og fór margur góður hugsjónamaðurinn fjárhagslega illa út úr því dæmi.

Á meðan við höfum sleikt sárin fjárhagslega hefur eldi sjávardýra erlendis þróast hratt og flytja Norðmenn í dag yfir 200 þús. tonn af eldislaxi út árlega. Ég er ekki með þessari fyrirspurn að hvetja eða letja til þess að fara út í nýtt laxeldisævintýri heldur að beina sjónum að þeim miklu og fjölbreytilegu möguleikum sem felast í eldi sjávardýra.

Lúðueldi, sæeyraeldi, sandhverfueldi og þorskeldi eru allt verkefni sem gefa góða von hér á landi og tilraunir gengið mjög vel með. Lúðueldið í Þorlákshöfn og eldi sæeyrans hjá Sæbýli í Vogum er komið það langt að útflutningur þaðan getur orðið á þessu ári eða því næsta. Ef allt gengur að óskum er þarna vísir að verulegum útflutningsverðmætum.

Í fyrra náði Hafró 10 þúsund sandhverfuseiðum. Eldi sandhverfunnar getur orðið mjög arðbært í strandeldi þar sem hægt er að skapa kjöraðstæður. Verð á sandhverfu í dag er um 600--1.000 kr. kílóið eftir stærð en hún er framleidd í dag í eldi mest í Galicíu á Spáni í eldisstöðvum í eigu Norðmanna. Ekki er ljóst með áframhald sandhverfueldis hér á landi en víst er að þar eru mikil verðmæti ef rétt er á haldið en hér eru aðstæður til strandeldis mjög góðar vegna heita vatnsins.

Merkileg tilraun með þorskeldi var gerð á Stöðvarfirði fyrir fáum árum á vegum Hafrannsóknastofnunar. Hún byggðist á því að þorskurinn var vaninn á að hlýða kallmerki þegar loðnu var sleppt á ákveðnum stað í firðinum. Á tilraunatímabilinu voru gefin 100 tonn af loðnu og stækkaði þorskurinn á ári um 16 sm en án fóðrunar hefði slíkur þorskur eða sambærilegur þorskur stækkað um 9 sm. Það er því augljóst að árangur af slíku eldi getur orðið mikill.

Til að komast að því hvort framtíð sé í slíku eldi þarf tilraun í miklu stærri stíl en þarna var gerð. Þar erum við að tala um 1.000--2.000 tonn af loðnu, kolmunna og síld. Slíkt yrði mjög kostnaðarsamt. Heyrst hefur sú hugmynd að til að koma þessu máli í framkvæmd ætti að taka hluta af þorskkvótanum og bjóða hann upp til þess að mæta útgjöldum.

Herra forseti. Hér er mikið í húfi fyrir Íslendinga og því hef ég lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. sjútvrh.:

,,1. Hver er stefna stjórnvalda varðandi eldi þorsks og annarra sjávardýra?

2. Hafa stjórnvöld gert áætlanir um rannsóknir á eldi einstakra tegunda í fjörðum við strendur Íslands?

3. Hver hefur verið árangur af eldi sjávardýra, þar með talið þorsks, hér á landi fram að þessu?``