Eldi þorsks og annarra sjávardýra

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 14:45:01 (5324)

2000-03-15 14:45:01# 125. lþ. 80.3 fundur 343. mál: #A eldi þorsks og annarra sjávardýra# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[14:45]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka þingmönnum fyrir þátttökuna í þessum umræðum og hæstv. sjútvrh. fyrir svörin. Það er náttúrlega til margs að líta þegar svo stór mál eru til umræðu hér í þinginu og erfitt að koma því frá sér á skömmum tíma. Auðvitað þyrfti að vera sérstök umræða hér í þinginu um eldi almennt.

Ég álít að ekkert geti komið í staðinn fyrir þá möguleika sem við höfum í fiskeldi. Við höfum séð þann atvinnuveg blómstra hjá öðrum þjóðum og það ætti að geta gerst hjá okkur líka. Spurningin er alltaf um hvaða leiðir eigi að fara. Við eigum rannsóknargögn sem styðja það að okkur eigi að vera óhætt að fara út í miklu meiri og stærri tilraunir en við höfum farið út í fram að þessu, þá kannski sérstaklega í eldi á sandhverfu.

Ég efast ekki um að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra að þorskeldið sé ekki hagkvæmt á þessu stigi máls en ég tel hins vegar eðlilegt að kanna það samt til hlítar og halda áfram þeim tilraunum sem fóru fram fyrir austan með að fóðra þorsk og lokka að ákveðnum hljóðmerkjum. Ég held að sú aðferð þurfi frekari könnunar við áður en við getum beinlínis sagt að það sé ekki hagkvæmt.

Varðandi þessa tillögu frá Samfylkingunni þá kemur hún reyndar töluvert á eftir þeirri fyrirspurn sem ég lagði fyrir hæstv. sjútvrh. Það var náttúrlega hugmynd mín að halda þessu máli fram eins og kostur væri á. Ég mun að sjálfsögðu gera það. Ég þakka fyrir áhuga samfylkingarmanna á þessu máli og annarra sem vilja láta gott af sér leiða í þessu sem öðru.