Sjúkrahótel

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 14:50:23 (5326)

2000-03-15 14:50:23# 125. lþ. 80.4 fundur 382. mál: #A sjúkrahótel# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[14:50]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum höfum við eytt mörgum þingfundinum í rökræður um fjárhagsvanda sjúkrastofnana. Segja má að hápunkturinn í þeirri umræðu hafi verið við fjárlagagerð nú í desember, þar sem gefin voru fyrirheit um að á einu bretti ætti að greiða úr fjárhagsvanda sjúkrastofnana sem safnast hefur upp á undanförnum árum. Frá áramótum átti að byrja á hreinu borði og leitast við að reka sjúkrastofnanirnar með eins mikilli hagkvæmni og unnt væri, án þess að skerða þó þjónustuna og ég tek vissulega undir það markmið. En markmið verða að vera raunhæf og gera þarf róttæka uppstokkun í rekstrinum ef þetta markmið á að nást.

Ein þeirra hugmynda sem fram hafa komið til að lækka kostnað og jafnframt bæta þjónustu við sjúklinga er að setja upp svokallaðar ,,sub-acut``-legudeildir inni á sjúkrastofnunum eða í tengslum við þær. Það eru deildir sem taka við sjúklingum eftir að bráðavandi þeirra hefur verið leystur. Á slíkri deild fá sjúklingar góða hjúkrun og eru undir stöðugu eftirliti, alltaf er hægt að grípa inn í ef ástand breytist en ekki beitt hátæknilækningum eins og gerist á bráðadeildum sem hafa mikinn kostnað í för með sér. Sem dæmi má nefna sjúkling sem farið hefur í liðskiptaaðgerð. Slíkir sjúklingar gætu farið á ,,sub-acut``-deild tveimur til þremur dögum eftir aðgerð og lokið þar sjúkralegunni. Með þessum móti væri hægt að auka til muna nýtingu á bráðarúmum og stytta þannig biðlista.

Ég vil taka það fram að með þessu á ég ekki við þjónustu eins og rekin er á Rauða kross hótelinu, sem er auðvitað góð og gild. Þar fær fólk að hvíla sig og ná sér betur eftir veikindi en þar er ekki hjúkrun og slík sjúkrahótel koma ekki í stað hjúkrunar- og endurhæfingardeilda eins og ég ræði hér um. Reynslan erlendis hefur sýnt að slíkar deildir kosta um 50% minna en bráðadeildir og er ástæðan fyrst og fremst sú að þar er ekki þörf fyrir dýra sérfræðinga í sama mæli og á bráðadeild.

Hv. þm. Guðrún Sigurjónsdóttir flutti þáltill. um þetta efni á 121. löggjafarþingi sem ekki náði fram að ganga. Ég beini því þeirri fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. hvort í undirbúningi sé að koma upp á næstunni slíkri ,,sub-acut``-deild, eða sjúkrahóteli með hjúkrun, í tengslum við Landspítala, háskólasjúkrahús.