Sjúkrahótel

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 14:56:17 (5329)

2000-03-15 14:56:17# 125. lþ. 80.4 fundur 382. mál: #A sjúkrahótel# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[14:56]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft afar athyglisverðu máli. Ég var og er mikill áhugamaður um framgang sjúkrahótela og sjúkrarýma af þeim toga sem hér um ræðir. Ég hafði uppi áform um aukningu í þeim efnum þegar ég var heilbrrh. og deildi þeim áhuga með þáv. landlækni, Ólafi Ólafssyni, sem hefur mikið skrifað um þessi mál og þekkir kannski hvað best til þeirra.

Ég skildi hæstv. ráðherra þannig að fullur vilji væri til þess af hálfu ráðuneytisins og þá ekki síður Sjúkrahúss Reykjavíkur eða hins nýja sameinaða sjúkrahúss að auka verulega fjölda þessara rýma. Mér þætti vænt um að hún útskýrði eilítið nánar hvort við erum þar að tala um tvöföldun í Rauða kross húsinu við Rauðarárstíginn eða hvaða tölur við erum að tala um. Er þetta eingöngu á hendi sjúkrahússtjórnarinnar sjálfrar eða fylgir viðbótarfjármagn frá ráðuneytinu? Þetta skiptir auðvitað öllu máli þegar maður er að reyna að glöggva sig á því hvort hér er eingöngu um áform að ræða eða veruleika sem við blasi.