Úrbætur á aðstöðu öldrunardeildarinnar Ljósheima á Selfossi

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 15:01:31 (5332)

2000-03-15 15:01:31# 125. lþ. 80.5 fundur 409. mál: #A úrbætur á aðstöðu öldrunardeildarinnar Ljósheima á Selfossi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[15:01]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Haustið 1997 gerðu Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Vinnueftirlit ríkisins og byggingarfulltrúi Selfossbæjar úttekt á húsnæði öldrunardeildar Sjúkrahúss Suðurlands á Selfossi, Ljósheimum. Ljósheimar voru áður Sjúkrahús Suðurlands. Þetta hús var byggt 1945 og þó ýmsar endurbætur hafi verið gerðar á því síðan þá kom í ljós í skýrslum sem áðurnefndir aðilar skiluðu að húsnæði og allur aðbúnaður bæði sjúklinga og starfsfólks er langt í frá að vera í lagi. Gerðar voru mjög alvarlegar athugasemdir hvað varðar ástand hússins bæði að innan og utan. Hurðarop eru of þröng til þess að hægt sé að aka rúmum inn og út úr herbergjum. Erfiðleikar kæmu upp ef rýma þyrfti húsnæðið í skyndi t.d. vegna bruna. Öll vinnuastaða starfsfólks þegar sinna þarf veikum sjúklingum er talin ófullnægjandi enda erfitt í dag að fá starfsfólk til þess að starfa þarna. Hreinlætisaðstaðan er ófullnægjandi, rakaskemmdir eru í veggjum og þær svo miklar að nú er það þannig að fyrir kemur að raki er í sængum sjúklinga að morgni. Flísar eiga til að losna og detta. Loftræsting er ekki í lagi. Kjallari er of niðurgrafinn miðað við byggingarreglugerðir. Útveggir eru illa sprungnir, þakið þarfnast lagfæringar og þrengslin eru mjög mikil. Eldvarnakerfið er ekki í lagi. Niðurstaða þessarar skýrslu var í stuttu máli sú að húsnæðið væri varla hæft til notkunar sem hjúkrunarheimili í núverandi ástandi. Fara þyrfti í gagngerðar endurbætur og frestur var gefinn til 1. júní 1998.

Í svari við fyrirspurn sem ég beindi til ráðherra í febrúar 1998 um málefni Ljósheima og byggingu nýrrar hjúkrunarálmu við Sjúkrahús Suðurlands kom fram að þá þegar væri hafinn undirbúningur að því að byggja nýtt húsnæði fyrir aldraða sjúklinga sem dveljast á Ljósheimum og þá starfsmenn sem þar starfa þannig að um væri að ræða góðar aðstæður og eðlilega vinnuaðstöðu. Enn sést lítið til nýbyggingarinnar og enn er sjúklingum og aðstandendum og starfsfólki á Ljósheimum boðið upp á ófullnægjandi aðstæður. Yfirvöldum heilbrigðismála ber skylda til að fylgja eftir skýrslum heilbrigðiseftirlitsins, vinnueftirlitsins og byggingarfulltrúa. Úrbótum átti að vera lokið fyrir 1. júní 1998, en hafi það ekki verið gert, var heimild til að beita dagsektum. Hefði það verið gert, hæstv. ráðherra, samkvæmt 29. gr. mengunarvarnareglugerðarinnar, þar sem gert er ráð fyrir því að beita megi hámarkssektum 500 þús. kr. á dag, þá þýðir það að fram til dagsins í dag væri um að ræða 300 millj. kr. Vinnueftirlitið hefur ekki slíka heimild, a.m.k. ekki með föstum fjárhæðum. En byggingarfulltrúi gæti lagt á dagsektir sem nema einni millj. á dag. Þar væri um 600 millj. að ræða. Ef þetta rynni síðan í byggingarsjóð fyrir nýtt heimili fyrir aldraða á Selfossi, þá væri þar um að ræða 900 millj. Það er aldeilis þörf á því að það sé borð fyrir báru í fjárhagsáætlunum heilbrrn. ef það á að mæta slíkum kostnaði.