Viðbrögð við þungunum unglingsstúlkna

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 15:15:49 (5340)

2000-03-15 15:15:49# 125. lþ. 80.7 fundur 426. mál: #A viðbrögð við þungunum unglingsstúlkna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Hefur hæstv. forseti gert sér grein fyrir að á hverju ári verða um 500 unglingsstúlkur undir tvítugu barnshafandi? Hefur hið háa Alþingi gert sér grein fyrir að á hverju ári fæðast um 250 börn mæðra sem eru undir tvítugu og á hverju ári láta um 250 stúlkur á sama aldri eyða fóstri? Milli 4 og 5% unglingsstúlkna á aldrinum 15--19 ára verða ófrískar á hverju ári. Miðað við tíðnitölu þungana unglingsstúlkna á árinu 1998 og að óbreyttu, munu 20% unglingsstúlkna í árgangi hafa gengið í gegnum þá reynslu að verða barnshafandi fyrir tvítugt og um helmingur þeirra farið í fóstureyðingu. Þetta eru ógnvæglegar staðreyndir sem nauðsynlegt er að taka á. Ég staðhæfi að í fæstum tilvikum hefur þungunin verið að vilja þessa fólks.

Tíðni þungana unglingsstúlkna hér á landi er óviðunandi. Það er mun algengara að íslenskar konur eigi börn mjög ungar en í öðrum vestrænum löndum. Það er t.d. tvisvar til þrisvar sinnum algengara að íslenskar unglingsstúlkur eigi börn en jafnöldrur þeirra annars staðar á Norðurlöndum og um fimm til sex sinnum algengara en t.d. í Hollandi. Fóstureyðingum hefur farið fjölgandi hér á landi á síðustu árum, sérstaklega hjá ungum stúlkum og tíðni fóstureyðinga í þessum aldurshópi er hærri hér en annars staðar á Norðurlöndum.

Nýbirt rannsókn Sóleyjar Bender hjúkrunarfræðings um viðhorf íslenskra ungmenna til skipulegrar fræðslu og þjónustu vegna kynlífs og barneigna þeirra, bendir til að meðalaldur íslenskra ungmenna við fyrstu kynmök er 15,4 ár og sama rannsókn leiddi í ljós að einungis 60% þeirra notuðu getnaðarvörn við fyrstu kynmök. Í ljósi þessa er ekki að spyrja að ástandi mála hér á landi.

Skýringu á þessu ástandi má sjálfsagt leita víða og ekki síst má líta til samfélagsgerðarinnar. Íslendingar eiga að meðaltali fleiri börn en fólk í öðrum vestrænum ríkjum og það hefur ekki þótt vera tiltökumál að konur ættu börn undir tvítugu. Þá einkennist íslenskt þjóðfélag af miklu umburðarlyndi gagnvart barneignum utan hjónabands. Hins vegar verður einnig að spyrja hvort kynfræðsla hafi brugðist hér á landi og hvort heilbrigðis- og skólakerfið hafi ekki náð að samhæfa aðgerðir sínar til að takast á við þennan vanda.

Í rannsókn þeirri sem ég vísaði í hér á undan kom fram að stór hluti ungmenna telur að ráðgjöf og fræðsla um kynlíf og barneignir sé ekki nægilega góð. Ljóst er að taka þarf sérstaklega á þessum málum hér á landi og því varpa ég fram þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh. til hvaða ráðstafana hún muni grípa til að sporna gegn hárri tíðni þungana unglingsstúlkna hér landi.