Viðbrögð við þungunum unglingsstúlkna

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 15:24:54 (5343)

2000-03-15 15:24:54# 125. lþ. 80.7 fundur 426. mál: #A viðbrögð við þungunum unglingsstúlkna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[15:24]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er uggvænlegt að af þeim 500 ungu stúlkum frá 15--19 ára sem urðu þungaðar á síðasta ári létu 270 eyða fóstri. Við þessu verður að bregðast og það verður að gera það strax. Það þarf að bæta aðgengi að getnaðarvarnarpillunni og hún þarf að fást ókeypis fyrir ungar stúlkur undir 20 ára. Og ég vil leggja þau orð til hæstv. ráðherra að neyðargetnaðarvörnin, sem verður nú frekar til umræðu hér í næstu fyrirspurn, verði afhent á heilsugæslustöðum án endurgjalds. Það úrræði væri fljótt að borga sig upp. Við getum ekki látið það líðast í landi þar sem ungar stúlkur neyðast til að fara í fóstureyðingu eftir að hafa orðið ófrískar, að hér sé ekki greiðari aðgangur að fræðslu og getnaðarvörnum. Við verðum að bæta aðgengið að getnaðarvörnum, auka ráðgjafarþjónustu og upplýsingar og veita neyðargetnaðarvörnina á heilsugæslustöðvum.