Viðbrögð við þungunum unglingsstúlkna

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 15:26:10 (5344)

2000-03-15 15:26:10# 125. lþ. 80.7 fundur 426. mál: #A viðbrögð við þungunum unglingsstúlkna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[15:26]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég verð nú að játa að mér finnst fsp. ekki snúast um fóstureyðingar og harma ef umræðan á enn einu sinni að fara í þann farveg. Þetta er spurningin um að við verðum að fara yfir það hvað þarf að gera til að koma í veg fyrir þunganir unglingsstúlkna. Við vitum alveg hvað það er: Númer eitt, tvö og þrjú er það fræðsla. Í öðru lagi þarf að auka aðgengi að getnaðarvörnum almennt. Ég vil að við förum að tala um hlutina eins og þeir eru en ekki alltaf að hengja bakara fyrir smið. Þetta er löggjöf sem er búin að vera síðan 1975 og við eigum ekki að þurfa að vera að tala um þessi atriði öðruvísi. Við þurfum að auka fræðslu um varnir gegn kynsjúkdómum, notkun heppilegra getnaðarvarna, ábyrgð á kynlífi, foreldraábyrgð um að það er mikið mál að vera einn með lítið barn þegar maður er kornungur og ekki hvað síst þurfum við líka að efla umræður meðal foreldra um að unga fólkið þeirra stundi kynlíf og hvernig hægt er að ræða það á heimilinu.

En kjarni málsins er sem sagt þessi: Kynlíf er því miður enn tabú hér á landi. Það má ekki taka á því fyrr en slysin gerast. Kannski er það kjarni málsins. Við þurfum opna umræðu og horfa til framtíðar.