Viðbrögð við þungunum unglingsstúlkna

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 15:28:45 (5346)

2000-03-15 15:28:45# 125. lþ. 80.7 fundur 426. mál: #A viðbrögð við þungunum unglingsstúlkna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[15:28]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir góð svör og ég fagna því að þetta mál er komið í ákveðinn farveg og kominn sé faghópur hjá landlækni til að leggja línurnar hvernig eigi að taka á þessu vandamáli. Jafnframt vil ég þakka þeim sem tóku þátt í umræðunni fyrir innlegg þeirra.

Það er ljóst að þunganir unglingsstúlkna eru heilbrigðisvandi, en ekki síður samfélagslegur vandi. Margar þessara stúlkna eru einstæðar mæður og ala börn sín oft upp án daglegs samgangs við barnsföður sinn. Ýmsar rannsóknir benda til þess að hagur þessara ungu mæðra sé fremur bágborinn. Barneignir breyta oft framtíðaráformum þessara ungu kvenna, t.d. fara menntunaráform oft í vaskinn og möguleikar þeirra til starfsframa minnka verulega. Nýlegar rannsóknir benda til þess að ungar mæður lendi oftar í erfiðri félagslegri og fjárhagslegri stöðu, þær verða oftar einstæðar mæður, hafa minni menntun, eiga að jafnaði fleiri börn og eru háðari félagslegri og fjárhagslegri aðstoð. Í nýlegri skýrslu Rauða kross Íslands um fátækt á Íslandi eru félagslegar aðstæður ungra mæðra sem ég lýsti hér á undan staðfestar að nokkru leyti. Ljóst er að að taka þarf sérstaklega á þessum málum með það að markmiði að lækka tíðni þungana unglingsstúlkna hér á landi, og ég tek svo sannarlega undir það sem kom fram í ræðu ráðherra, að hugarfarsbreytingu þarf til.

[15:30]

Reynsla annarra þjóða sýnir að besta leiðin til að draga úr óæskilegum þungunum er að auka fræðsluna og auðvelda aðgang að getnaðarvörnum. Skoða þarf sérstaklega og endurbæta kynfræðslu í grunnskólum og bæta aðgengi ungmenna að ráðgjöf um kynlíf og barneignir, t.d. með því að koma á markvissri heilsugæslu í framhaldsskólum. Einnig kæmi til greina að koma á fót sérstakri kynfræðslueiningu innan heilsugæslunnar eða að hún yrði rekin af frjálsum félagasamtökum. Þá þarf einnig að endurskoða reglur um ávísun á getnaðarvarnir. Í því sambandi er rétt að skoða að veita ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum rétt til að ávísa á getnaðarvarnir, eins og pilluna og neyðargetnaðarvörn. Í þessum málum gildir bókstaflega málshátturinn að of seint er að byrgja brunninn, þá barnið er dottið ofan í.