Aðgengi að getnaðarvarnarpillu

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 15:37:33 (5350)

2000-03-15 15:37:33# 125. lþ. 80.6 fundur 425. mál: #A aðgengi að getnaðarvarnarpillu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[15:37]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir þær fyrirspurnir sem við höfum fengið svör við núna. Ég fagna sérstaklega svari heilbrrh. um vinnuhópinn sem mun fara í að forgangsraða málum er lúta að getnaðarvörnum og neyðargetnaðarvarnarpillunni. Þannig förum við núna vonandi að sjá fram á betri tíma. Við vitum vel að neyðargetnaðarvarnarpillan hefur alls ekki verið nægilega aðgengileg. Hún hefur fyrst og fremst verið notuð í Hinu húsinu, ábyggilega með mjög góðum árangri, og eins á kvennadeildinni hjá einstaka lækni. En eins og við komumst að niðurstöðu um í umræðunni um fyrirspurnina á undan þá snýst þetta kannski um aukið aðgengi og aukna fræðslu almennt um getnaðarvarnir og kynlíf. Og þar þurfum við að gera átak og um leið og við höfum þessa fræðslu í lagi og höfum til þess þjálfað fagfólk þá förum við að sjá fram á betri tíma í þessum málum.