Aðgengi að getnaðarvarnarpillu

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 15:44:55 (5355)

2000-03-15 15:44:55# 125. lþ. 80.6 fundur 425. mál: #A aðgengi að getnaðarvarnarpillu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[15:44]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir tækifærið til að ræða þetta mál á Alþingi og fjalla um það sem verið er að vinna að í þessum málum. Ég held að þetta sé hluti af þeirri opnu umræðu sem við erum að tala um, að það sé fordómalaust talað um þessi mál eins og þau koma fyrir. Það var í beinu framhaldi af fyrirspurn frá hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni sem nefnd sem ég ræddi um áðan var skipuð. Sú nefnd hefur unnið geysilega mikið starf sem síðan er verið að vinna tillögur úr. Það hefur allt komið fram í þessari umræðu og ég þarf ekki að endurtaka það.

Ég segi enn og aftur: Heilbrigð, opin umræða er undirstaða þess að við getum náð árangri á þessu sviði.