Löggæsla í Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 16:01:16 (5363)

2000-03-15 16:01:16# 125. lþ. 80.9 fundur 411. mál: #A löggæsla í Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[16:01]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstvirtur forseti. Að undanförnu hef ég átt náið samráð við yfirstjórn lögreglunnar í Reykjavík um fyrirkomulag hverfalöggæslu í borginni. Ég hef mikinn áhuga á þessu verkefni og hef lagt áherslu á það við lögreglustjórann í Reykjavík að mér séu kynntar fyrirætlanir á þessu sviði. Mér er líka fulljóst að þetta er málefni sem varðar borgarana miklu og hafa íbúar hverfa í borginni og íbúar nágrannasveitarfélaga ekki legið á skoðunum sínum um mikilvægi þess að hverfalöggæslu sé sinnt. Það hefur líka verið eitt af meginviðfangsefnum mínum frá því ég tók við embætti að bæta hverfalöggæslu og gera lögregluna sýnilegri meðal borgara.

Hvað varðar sérstaklega Seltjarnarnes og Mosfellsbæ þá hef ég átt fundi með bæjarstjórum beggja sveitarfélaganna um hverfalöggæslu. Fyrir stuttu átti ég einnig fund með yfirstjórn lögreglunnar í Reykjavík og bæjarstjórum sveitarfélaganna tveggja þar sem farið var yfir stöðu mála og áform lögreglunnar á þessu sviði. Ég er þess fullviss að þar hafi margt skýrst í þessum málum fyrir forsvarsmönnum sveitarfélaganna.

Ef ég vík fyrst nánar að Mosfellsbænum þá lítum við svo á að löggæsla hafi verið bætt verulega um áramótin. Þar var áherslum reyndar breytt nokkuð og settur einn lögreglumaður sem annast málefni barna og unglinga og sinnir rannsóknum svonefndra minni háttar brota. Það hefur ekki áður verið til slík staða í Mosfellsbæ. Það starf hefur gengið vel og lögreglan vinnur það og setur sér markmið og áherslur í samráði við bæjaryfirvöld, þó aðallega barnaverndaryfirvöld. Undanfarið hefur verið í gangi þar forvarnaverkefni, bæði vegna fíkniefnaneyslu og eins vegna eineltis og ofbeldismála sem bar nokkuð á í bæjarfélaginu. Talsverður misskilningur virðist hafa verið uppi að undanförnu um löggæsluna á svæðinu en að mati lögreglunnar í Reykjavík býr Mosfellsbær að þessu leyti einna best allra svæða umdæma lögreglunnar í Reykjavík. Hverfastöð lögreglunnar þar er opin frá klukkan 7--23 alla virka daga og aðfaranætur laugardaga. Lögreglubifreið er alltaf á svæðinu en utan þess tíma er eftirlitið með sama hætti og í öðrum hverfum lögreglunnar, þ.e. með vöktum. Til viðbótar þessu stefnir lögreglan að því að auka umferðareftirlit í bænum. Ekki eru uppi frekari áform um aukningu á löggæsluforminu þarna til viðbótar. En ég vil taka það skýrt fram, hæstv. forseti, að það eru átta lögreglumenn og hafa verið starfandi, átta lögreglumenn en ekki sex. Það var ákveðinn misskilningur sem kom fram í þeim texta sem fólk skrifaði undir í þessari undirskriftasöfnun, m.a. bar á þeim misskilningi að ekki væri næturvakt í bænum um helgar en eins og ég sagði áðan hafa verið vaktir þar allan sólarhringinn.

Hvað varðar hverfalöggæslu á Seltjarnarnesi þá lenti lögreglan í Reykjavík í ákveðnum vanda vegna eiginlega beggja föstu lögreglumannanna á staðnum sem hafa báðir verið fjarverandi um nokkra hríð vegna veikinda. Lögreglan í Reykjavík hefur nú fundið bráðabirgðalausn á því máli í samráði við bæjarstjórn Seltjarnarness. Hún felst í því að áfram verða tveir menn sem sinna hverfalöggæslu á Seltjarnarnesi, en viðveru þeirra verður breytt. Fyrri lögreglumaðurinn kemur á vakt klukkan 11 eða 12 og er með viðveru til klukkan 19 eða 20. Seinni lögreglumaðurinn kemur á vakt klukkan 15.30 og er með viðveru til klukkan 23.30 og verður því einn á vakt fram eftir kvöldi. Er þetta byggt á þeim áherslum sem bæjaryfirvöld hafa komið fram með í málinu. En þegar með þarf mun aðalstöðin í Reykjavík að sjálfsögðu bæta við mannskap. Að auki er stefnt að því að bæta umferðareftirlit á Seltjarnarnesi.

Þetta er staðan í dag, hv. fyrirspyrjandi, og hef ég lagt áherslu á það að tryggja þessa þjónustu lögreglunnar í samvinnu við íbúa og bæjaryfirvöld.