Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 10:50:25 (5371)

2000-03-16 10:50:25# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[10:50]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hvað er orðið um allt okkar starf í sex hundruð sumur ef það þarf sérstakt frv. til að skýra hvað er íslenskt fyrirtæki? Dettur mönnum í hug, sem hafa farið í gegnum hinn íslenska lagabálk, að það liggi ekki ljóst fyrir hvað er íslenskt fyrirtæki?

Herra forseti. Það kann vel að vera að það sé ekki tilgangur hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnarinnar að styrkja einokun Eimskipafélagsins á markaðinum sem við ræddum um áðan. Þetta frv. er hins vegar merki um allt annað. Skoðum aðeins söguna.

Hæstv. utanrrh. segir að það eigi ekki að útiloka þetta tiltekna fyrirtæki. Það vill svo til að nefndin sem starfaði á hans vegum útilokaði þetta fyrirtæki eigi að síður frá forvali sl. ár eftir að umrætt fyrirtæki hafði í heilt ár sinnt þessum flutningum með ágætum. Það hafa engar kvartanir borist um það, herra forseti. Þar liggur fyrir einbeittur vilji, er það ekki? Til hvers? Til að knésetja þetta fyrirtæki. Hvað kemur síðan fram í orðsendingunni frá 24. febrúar til bandarískra stjórnvalda? Ég las áðan upp, að vísu og ég viðurkenni það, grófa þýðingu mína á því sem þar stendur. En þar var íslenska utanrrn. beinlínis að hvetja til þess að þeim samningum sem búið væri að gera yrði rift.