Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 10:51:53 (5372)

2000-03-16 10:51:53# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[10:51]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir af hálfu utanrrn. og hefur lengi legið fyrir að það er þeirrar skoðunar að þetta tiltekna fyrirtæki uppfylli ekki þau skilyrði sem sett eru í þeim samningi sem gerður var milli Íslands og Bandaríkjanna. Um það snýst deilan. Við túlkum þann samning eins og hann er gerður. Sú túlkun kemur m.a. fram í þessu frv. um að líta beri á hvað telst íslenskt fyrirtæki í sambandi við samskipti við varnarliðið. Svo einfalt er það mál. Þetta er skylda utanrrn. hvort sem þingmanninum líkar það betur eða verr. Ef hann hefði verið í þeim stól, sem ég gæti vel trúað að hann muni einhvern tíma sækjast eftir, þá hefði hann nákvæmlega sömu skyldu hvort sem honum líkar betur eða verr. Á því verður hv. þm. að fara að átta sig.