Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 10:54:24 (5374)

2000-03-16 10:54:24# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[10:54]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í tæknileg atriði eða framkvæmdaatriði sem lúta að samskiptum við erlendan her í landinu. Fyrir mér eru þetta grundvallarmál og ég ætla aðallega að fjalla um þau sem slík.

Ég verð að segja, herra forseti, að þetta er auðvitað afar vandræðalegt frv., þessi pappír hér. Það hlýtur að vera heldur ónotaleg stund sem hæstv. utanrrh. hefur átt þegar hann setti þetta saman eða safnaði kjarki til að koma með þetta plag hér inn --- nema hæstv. utanrrh. sé svona sæll í sinni trú að honum líði bara vel með þetta. Ég held þó að einhvern tímann hefði íslenskum utanríkisráðherrum, jafnvel þó þeir kæmu úr Framsfl., þótt það með síður skemmtilegri erindum á Alþingi að flytja lagafrv., svona silkipappírsfrv., utan um það fyrirkomulag sem menn hafa búið sér til áratugum saman til að græða á erlendri hersetu. Voru höfð um það ýmis nöfn hér á árum áður.

Þetta er einnig ákaflega vandræðalegur pappír vegna þess að umbúnaðurinn hér samræmist ákaflega illa hinum hástemmdu yfirlýsingum og ástarjátningum, t.d. núverandi stjórnarflokka, til frjálsra viðskipta. Eða hvað? Jú, eitthvað er þetta kindarlegt hjá þeim. Hér er sem sagt reynt að koma á blað einhverjum reglum sem þrátt fyrir allar ástarjátningar um frjáls viðskipti duga til að halda verndarhendi yfir því kerfi, því mjólkurbúi sem erlenda hersetan hefur verið fyrir útvalda aðila í landinu. Nú eiga það að heita tilnefningar á réttum aðilum eftir forval til að fá að græða á hersetunni. (Gripið fram í.) Tilnefningar. Þeir sem komast í gegnum þetta mikla nálarauga verða guðs útvaldir og fá að sjúga spenana áfram.

Það er náttúrlega ekki til að bæta úr ef í ljós kemur, sem er auðvitað mikill skandall, að kominn sé óboðinn gestur í veisluna. Það sé kominn gestur í veisluna sem sé bara alls ekki á gestalista ríkisstjórnarinnar og átti alls ekki að mæta. Hann hefur einhvern veginn svindlað sér inn í boðið og er farinn að njóta veitinganna. Þetta er auðvitað mikið hneyksli. Þá eru góð ráð dýr og lögspekingar og alls konar snillingar eru settir í að semja svona pappír.

Ég vil minna á, herra forseti, að fyrir þessu þingi liggur tillaga um að við Íslendingar skipum í nefnd til að fara og ræða við hinn erlenda her og bandarísk stjórnvöld um brottför hersins úr landinu. Það væri nær að Alþingi eyddi tíma sínum í að koma því verki áleiðis. Það er tímabært og þó fyrr hefði verið. Af ýmsum ástæðum er auðvitað sérkennilegt að menn skuli nú um þessar mundir og við þessar aðstæður, bæði í alþjóðastjórnmálum og hér á Íslandi, berja saman löggjöf um hvernig þessu skuli komið til frambúðar.

Ég minni líka á að á dagskrá þessa fundar eru tillögur um sýnu þarfari mál og brýnni en þetta. Þau lúta að því að fara í að rannsaka þá mengun og þau umhverfisspjöll sem erlend herseta hefur valdið, tillögur fluttar af hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur og þeim sem hér talar.

Ég vil líka spyrja hæstv. utanrrh. af þessu tilefni hvað líði viðræðum við bandarísk stjórnvöld um áframhaldandi umsvif erlends hers í landinu í ljósi þess að bókanir um þau samskipti eru að renna sitt skeið. Núgildandi bókun er uppsegjanleg frá og með aprílmánuði á þessu ári og fellur úr gildi ári síðar. Það er auðvitað eftir öðru að nánast engar fréttir fáist af því hvað sé í gangi í þeim efnum, svo að ekki sé minnst á að öllum hugmyndum um aðild allra stjórnmálaflokka að þessum viðræðum er hafnað. Að sjálfsögðu á að læsa þetta ofan í skúffu og pukrast með þetta eins og yfirleitt allt annað sem þessum samskiptum hefur verið samfara. (Utanrrh.: Viltu vera með?) Já, herra forseti. Ég teldi það ágætt, ef þetta er tilboð frá hæstv. utanrrh. um að t.d. sá sem hér talar og flokkur hans fái að komast eitthvað að þessum málum, og ég er til í það. Ég hefði gaman af því að ræða við þessa höfuðsnillinga og vera með í þessum viðræðum öllum. Það yrði sennilega aðeins meira fjör ef ég yrði þar með heldur en er núna.

Herra forseti. Ég hlýt vitanlega að vekja athygli á þeirri staðreynd, í ljósi sögunnar og vona að mér leyfist það nú þó að ég sé þar kannski pínulítið að líta á ávextina í annarra garði, að hér er formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., að flytja frv. til laga um fyrirkomulag samskipta og sérstaklega viðskiptatengsl við erlendan her í landinu, um ótímabundna löggjöf sem felur í raun í sér þá hugsun að erlend herseta verði hér um aldur og ævi. Þetta er ekki tímabundið ástand eða tímabundin ráðstöfun. Ég sé ekki að reiknað sé með öðru í þessu frv. en það gildi um aldur og ævi, ad infinitum. Það er alveg horfið út úr stefnu Framsfl. að hér skuli ekki vera erlendur her á friðartímum eða hvað? Það er ekki neinn bráðabirgðabragur á þessum samsetningi sem formaður Framsfl. er að flytja hér um umbúnaðinn, silkipappírinn utan um fyrirkomulagið sem helmingaskiptaflokkarnir bjuggu sér til þess að græða á erlendri hersetu um miðbik aldarinnar. Það reyndist furðu lífseigt þar til önnur stoðin gaf upp öndina, þ.e. Samband ísl. samvinnufélaga, sem var gróðaveitufarvegurinn frá annarri hliðinni en svo hitt kerfið hinum megin.

[11:00]

Að öðru leyti, herra forseti, ætla ég ekki að ræða mikið um þetta frv. efnislega. Ég hef eiginlega ekki geð í mér til þess. Ég bendi þó á þá staðreynd að sem betur fer hefur mikilvægi þessara viðskipta eða stærð þeirra í íslenskum þjóðarbúskap farið ört minnkandi, það er vel. Í grg. með frv. eru birtar upplýsingar yfir vægi þessara viðskipta á árinu 1998 sem ég hygg reyndar að hafi verið óvenjuumsvifamikið ár í þessum efnum.

Í þeirri þáltill. sem ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson flytjum um viðræður við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkuflugvallar er birt tafla sem ég lét taka saman fyrir tveimur árum um þessi viðskipti og stærð þeirra í íslensku efnahagslífi og þjóðarbúskap allt frá árinu 1970. Þar kemur fram að tekjur af hersetunni hafa yfirleitt verið á bilinu allt frá 8,3% af útflutningstekjum og niður í þau 4,7% sem þau eru samkvæmt greinargerð með frv. hæstv. ráðherra á árinu 1998.

Ef þetta er skoðað sem hluti af vergri landsframleiðslu fór þetta upp í að verða á árunum upp úr 1980, árin 1983 og 1984 var þetta hlutfall hæst, allt að 3,3% af vergri landsframleiðslu en var á árinu 1998 1,8%. Þetta er á niðurleið og mun væntanlega reynast lægri tala á árinu sem leið og árinu sem er nú að líða vegna minni framkvæmda ef ég veit rétt.

Með öðrum orðum, herra forseti, þetta er ekki lengur orðin sú stærð í efnahagslífi okkar eða þjóðarbúskap, sem betur fer, sem gerir það að verkum að við þurfum að hafa stórfelldar áhyggjur af því þó að úr þessu dragi og þetta hverfi. Við höfum mætt miklu stærri sveiflum í efnahagslífi okkar og þjóðarbúskap. Þetta er eiginlega innan skekkjumarka í þeim útreikningum og þetta er orðin stærð sem er ekki nema eins og tvöfaldar sveiflurnar á milli ára í veiðum og vinnslu uppsjávarfiska.

Áhrifin væru hins vegar talsverð og staðbundin á atvinnulíf á Suðurnesjum. Þess vegna viljum við mæta því með mótaðgerðum og reyndar háttar óvenjuvel til í þeim efnum um þessar mundir þar sem atvinnuástand á því svæði er nokkuð gott og margt áhugavert að gerast í atvinnulífinu.

Það er því miður svo dapurlegt, herra forseti, að enginn sjálfstæður metnaður virðist vera orðinn eftir, a.m.k. í herbúðum stjórnarflokkanna og jafnvel víðar í þessum efnum. Það virðist engin sjálfstæð stefna vera til staðar lengur eins og sú sem a.m.k í orði kveðnu var við lýði á því árabili þegar menn réttlættu hina erlendu hersetu fyrir sjálfum sér með því að hún væri ill nauðsyn og til komin vegna ófriðlegra aðstæðna í heiminum en hins vegar skyldi hinn erlendi her hverfa úr landi um leið og friðvænlegar horfði.

Nú er þetta komið allt saman á heldur dapurlegra plan og viðskiptaþátturinn virðist vera aðalatriði þessa máls eða stór hluti málsins af hálfu stjórnvalda. Þar af leiðandi læðist því miður að manni sá ónotalegi grunur að kannski væri vænlegasta leiðin og helstu vonirnar til þess að losna við þessa erlendu hersetu að hinir réttu, útvöldu aðilar hættu að græða á hersetunni. Kannski komi þá annað hljóð í strokkinn hjá t.d. stjórnarflokkunum ef óboðnir gestir í veislunni væru farnir að græða á þessu. Þá skapast kannski forsendur til þess að taka það mál á dagskrá af meiri alvöru að Íslendingar reki af sér slyðruorðið og hafi sama metnað eins og flestallar ef ekki allar aðrar þjóðir. Nánast alls staðar annars staðar í heiminum þar sem ég þekki til á byggðu bóli líta menn á það sem nauð eða illa nauðsyn í versta falli að hafa erlendan her í landi sínu. Nágrannaþjóðir okkar hafa ekki léð máls á slíku. Fjarlægar þjóðir eins og í Asíu eru í óða önn að hrinda erlendri hersetu af höndum sér, semja um að erlendir herir fari, jafnvel þó að það kosti umtalsverðar efnahagslegar fórnir og er þó við ramman reip að draga þar sem er Sámur frændi með alla peninga sína og allan sinn yfirgang.

En því miður er þetta mál nánast ekki á dagskrá á Íslandi nema þá af hálfu þess flokks sem hér er talað fyrir. Það er harla dapurlegt og segir sína sögu um það hversu rislágur málflutningur íslenskra stjórnmálamanna er orðinn upp til hópa í þessum efnum og metnaðurinn lítill fyrir hönd sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar.