Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 11:06:53 (5375)

2000-03-16 11:06:53# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[11:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vissi að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er á móti Atlantshafsbandalaginu eins og ýmsu öðru sem hann er á móti en ég átti satt best að segja ekki von á að hann væri andvígur því að setja opnar, íslenskar leikreglur um þessi viðskipti sem hefur ekki áður verið gert. Hann talar um forval og tilnefningar eins og þar sé verið að hleypa mönnum inn í eitthvert fjós og inn í eitthvert mjólkurbú.

Nú hefur hv. þm. eitt sinn verið samgrh. og það vill svo til að það er mjög algengt hjá Vegagerðinni að fram fari forval og útboð. Það nákvæmlega sama er að gerast hér. Leit hv. þm. þannig á meðan hann var samgrh. að þar væri verið að hleypa einhverjum útvöldum að inn í eitthvert mjólkurbú? Ég á ekki von á því. Hér er um það nákvæmlega sama að ræða. Ég bið hv. þm. að ræða þessi mál málefnalega en ekki með einhverjum allt öðrum hætti vegna þess að varnarliðið á í hlut.

Að því er varðar samninga við Bandaríkjamenn sem hv. þm. spurðist fyrir um þá eru þeir í undirbúningi. Þeir verða að sjálfsögðu á vettvangi utanrrn. Ég fagna því í sjálfu sér að hv. þm. vill koma að þessum samningum en ég held ég verði að hafna því miðað við ræðu hans hér því hann leit á það þannig að það væri svona til að skapa fjör. Hér er um alvarlega samninga að ræða milli þjóða og þeir verða að sjálfsögðu reknir á þeim grundvelli.