Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 11:12:44 (5378)

2000-03-16 11:12:44# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[11:12]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er mikið í húfi, það er ekkert annað. Það mundi bara eyðileggja algjörlega samskipti Íslands og Bandaríkjanna ef menn með aðrar skoðanir en hæstv. utanrrh. kæmust að þessum viðræðum. Er þá ekki yfirleitt óheppilegt t.d. að ég fái að fara til Bandaríkjanna? Er þá ekki stórhættulegt að ég hafi aðgang að Bandaríkjamönnum yfirleitt? Er ekki stórhættulegt að það vitnist vestur um haf að sá hluti þjóðarinnar sem hefur þessa skoðun sé til?

Hvað ætlar hæstv. utanrrh. að gera í sambandi við utanrmn.? Nú vill svo til að ég er nefndarmaður í utanrmn. Það vill líka svo til að ríkisstjórnin er að lögum skuldbundin til að ráðfæra sig við utanrmn. Alþingis um mikilsverð málefni. Ætlar hæstv. utanrrh. að beita sér fyrir því að reka mig úr utanrmn.? Hvar endar þessi hugsunarháttur hjá hæstv. utanrrh.? Hvar er hann á vegi staddur í sínum lýðræðislega þankagangi eða hitt þó heldur í þessum efnum?

Auðvitað verður hæstv. utanrrh. að hafa aðferðafræði sína fram í þessum efnum svo lengi sem hann hefur til þess stuðning ríkisstjórnarinnar en mér finnst þetta ekki mjög málefnalegt upplegg, satt best að segja, af hálfu hæstv. ráðherra. Auðvitað nær það ekki máli að það mundi breyta í grundvallaratriðum þeim aðstæðum sem eru fyrir hendi og allir vita um, að þetta mál er umdeilt og hefur mjög lengi verið. Þó að menn hafi að vísu mikið reynt til þess á síðustu árum að búa til þann veruleika að þetta heyrði til liðinni tíð og engir væru eftir í landinu með þau sjónarmið að óæskilegt væri að hafa hér erlendan hér, reynist það jafnoft rangt og kemur mönnum alltaf jafnmikið á óvart að þetta er ekki þannig. Það er útbreidd andstaða við hina erlendu hersetu meðal þjóðarinnar og hún nær t.d. langt út fyrir raðir þess stjórnmálaflokks sem ég tala fyrir og það held ég að hæstv. utanrrh. ætti að viðurkenna. En það er orðið bannorð að viðurkenna það, sem var þó lengi vel staðreynd, að m.a. Framsfl. var verulega klofinn í þessu máli.